Frambjóðendur háðu píanóeinvígi á framboðsfundi

frambodsdundur nme webNítján einstaklingar eru í framboði í tíu embætti stjórnar Nemendafélags Menntaskólans á Egilsstöðum en kosið er eftir helgi. Frambjóðendur kynntu sig og stefnumál sín á skrautlegum framboðsfundi að lokinni kennslu í gær.

Áherslur frambjóðendanna voru afar mismunandi og jafnvel misgáfulegar. Almennt snéru loforðin að félagslífinu en sumir gengur lengra en aðrir, til dæmis með að lofa fríu skutli með leigubílum heim af böllum og spjaldtölvum handa öllum.

Nokkuð var um harðar pólitískar árásir á mótframbjóðendur, til dæmis sakaði einn frambjóðandi mótframbjóðanda um að vera vondan á meðan annar hjólaði í andstæðing sinn og fjölskyldu hans en mærði eigin, tiltók meðal annars að hann hefði innbyrðis tengsl við skólastjórnendur.

Framboðsræðurnar voru misvel undirbúnar. Sumir komu með skrifaðar ræður, jafnvel æfða leikþætti, á meðan aðrir komu upp í pontu og viðurkenndu að þeir hefðu ekkert gert.

Einn frambjóðandi lýsti því yfir að hann tæki hagsmuni annarra fram yfir sína eigin en eftir því sem Austurfrétt kemst næst er slíkt fremur fátítt í stjórnmálum.

Frambjóðandi til formanns Leiklistarfélags ME fékk ekki að klára framboðsræðu sína en hann las upp úr ræðu fjármálaráðherra þegar hann mælti fyrir fjárlagafrumvarpi ársins 2015. Hann var einn í framboði. Fundarstjóri hafnaði öllum beiðnum úr sal um að frambjóðandinn fengi að endurflytja eða halda áfram með ræðuna.

Tveir buðu sig fram til formanns Tónlistarfélags ME. Fundarstjórar öttu þeim út í píanóeinvígi.

Fyrirspurnir úr sal voru af ýmsum toga en mögulegir gjaldkerar voru þar til dæmis spurður um hversu margar tölur væru á VISA-korti og hver væri munurinn á debet og kredit.

Eftir hádegi í dag er kosningadagur þar sem frambjóðendum gefast frekari tækifæri til að kynna sig en kosið er á mánudag og þriðjudag.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.