Komin til Bandaríkjanna á heimsmeistaramótið: Það er mikil tilhlökkun og gleði í hópnum

niupluseinnLiðið Einn + níu úr Grunnskóla Reyðarfjarðar sem sigraði í tækni- og hönnunarkeppni grunnskólanemenda, FIRST LEGO League, sem fram fór í Háskólabíói í vetur og tryggði sér um leið þátttökurétt á heimsmeistaramóti FIRST LEGO, er nú komið til í St. Louis í Bandaríkjunum þar sem keppnin fer fram.

Keppnin hófst í í fyrradag miðvikudaginn 22. apríl og stendur yfir í fjóra daga. Hún skiptist í þrennt. Kynningu á rannsóknarverkefni, kynningu á forritun og hönnun vélmennis og svo vélmennakappleik.

„Það var mikill spenningur, tilhlökkun og gleði í hópnum á lokasprettinum enda mikið ævintýri framundan. Dagskráin er búin að vera stíf og hafa þau verið að rýna frekar í þrautirnar og forritunina á vélmenninu sem þau hönnuðu, og yfirfara það til þess að eiga möguleika á að bæta við sig stigum,“ segir Guðlaug Árnadóttir, aðstoðarskólastjóri Grunnskólans á Reyðarfirði í samtali við Austurfrétt.

Gríðarlegur undirbúningur

Mikil vinna hefur staðið yfir frá því krakkarnir sigruðu keppnina í Háskólabíó. „Við byrjuðum undirbúning strax um miðjan febrúar. Enda liggur gríðarleg vinna að baki svona keppni. Fyrir utan alla vinnuna í kringum vélmennið þarf hópurinn að setja upp sinn eigin bás þar sem hann kynnir meðal annars bæinn sinn. Svo þurfa allir skólarnir að skila sér rannsóknarverkefni og felst verkefni Einn + níu í að lýsa skoðun sinni á því að vilja gera táknmál heyrnalausra hátt undir höfði og kenna það í grunnskólum, og það þurftu þau að setja saman.
Svo fór alveg gífurleg vinna í að snúa öllu yfir á ensku. Hópurinn þarf að geta staðið fyrir máli sínu varðandi hönnunina á vélmenninu og eins í sérverkefninu sem þau flytja á ensku.

Mikil samheldni

Síðast en ekki síst þurfti að fjármagna ferðina. En þar á foreldrahópurinn mikinn heiður. Það er svo skemmtilegt hvað þeir komu strax saman og unnu samheldin og samstillt í að krakkarnir kæmust í þess ferð. Svona ferð kostar heilmikla peninga og skólinn hefði aldrei haft tíma til að leggja í alla þessa vinnu til að safna styrkjum og halda fjáraflanir. Mér finnst aðdáunarverð vinnan sem þau lögðu í þetta,“ segir Guðlaug.


Maður veit aldrei

Lið allstaðar úr heiminum keppir á mótinu. Vitið þið hversu mikla möguleika Einn + níu hefur til að sigra? „Nei, það er ómögulegt að vita það. Við verðum samt að taka mið af því að við fórum alveg græn í þessa keppni á íslandi og það kom okkur verulega óvart að sigra hana svo maður veit aldrei. Krakkarnir hafa verð ofboðslega dugleg og þetta hefur lukkast vel. Vonandi fá þau bara mikinn skóla og skemmtilegt ævintýri út úr þessu,“ segir Guðlaug brosandi að lokum.

Mynd: Hópurinn rétt áður en þau lögðu í hann í ferðalagið mikla til Bandaríkjanna. Mynd: Guðrún Linda Hilmarsdóttir.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.