Sýning um austfirska kvenljósmyndara opnar í dag: Datt í hug að gera lokaverkefni sem myndi nýtast mér og vinnunni

LjosmyndasyningÍ dag föstudaginn 24. október kl. 16 verður opnuð ljósmyndasýning í anddyri Héraðsskjalasafns Austfirðinga á Egilsstöðum. Sýningin er hluti af lokaverkefni Báru Stefánsdóttur héraðsskjalavarðar til MA prófs í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands
.
Á sýningunni er varpað ljósi á fjórtán ólíkar konur sem lærðu ljósmyndun, störfuðu á ljósmyndastofum og tóku myndir á Austurlandi á árunum 1871-1944. Birtar eru myndir af þessum merku konum og sýnishorn af verkum þeirra.

„Hugmyndin að sýningunni varð eiginlega til þegar ég var að skoða myndir sem eru til hérna á Héraðsskjalasafninu . Ég var enn í náminu mínu þegar ég byrjaði að vinna hérna í maí í fyrra og datt í hug að það væri skemmtileg hugmynd að gera lokaverkefni sem myndi nýtast mér og vinnunni um leið, nýtast okkur báðum. Það var upphafið að þessu,“ segir Bára Stefánsdóttir héraðsskjalavörður á Héraðsskjalasafns Austfirðinga í samtali við Austurfrétt.

Nicoline Weywadt frá Djúpavogi var fyrsta íslenska konan sem nam ljósmyndun og stundaði sjálfstæðan atvinnurekstur í greininni. Ljósmyndastofa Eyjólfs Jónssonar á Seyðisfirði lokaði árið 1944 en við þá stofu unnu margar þessara kvenna.

„Það kom mér eiginlega á óvart þegar ég fór að rýna í þetta að það voru miklu fleiri konur sem störfuðu sem ljósmyndarar en ég hélt. Margar voru virkilega góðar og ráku sínar eigin stofur. Eins og Nicoline Weywadt sem var fyrst og lærði 1871. Hún tók alveg svakalega góðar myndir miðað við tæknina sem var þá í boði.“

Hvernig settirðu sýninguna upp? „Ég setti hana þannig upp að gestir fá að kynnast hverri konu fyrir sig með upplýsingum og fróðleiksmolum um ævi þeirra og sjá sýnishorn af myndunum sem þær tóku. Ég er sátt við útkomuna," segir Bára að lokum.

Ljósmyndasýningin verður opnuð í í dag föstudag í anddyri Héraðsskjalasafns Austfirðinga í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Allir velkomnir og heitt á könnunni.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.