Verður Austurstræti mótsvar við Laugaveginum?

illikambur gangaFrumkvöðlar í ferðaþjónustu kynntu um helgina hugmyndir sínar um gönguleið á milli Lóns og Fljótsdals sem þeir kalla „Austurstræti." Hugmyndin er að byggja upp gönguleið sem yrði sennilega sú lengsta sem í boði væri fyrir almenna ferðamenn hérlendis.

Ferðaþjónustuaðilarnir eru Steingrímur Karlsson, sem staðið hefur fyrir hestaferðum um austfirskar heiðar undanfarin ár og er að byggja upp Óbyggðasafn á Egilsstöðum í Fljótsdal og Gunnlaugur B. Ólafsson sem byggt hefur upp ferðaþjónustu á Stafafelli í Lóni. Þeir kynntu hugmyndir sínar fyrir áhugasömum í Reykjavík, á Egilsstöðum og Höfn á laugardag.

Hugmyndir þeirra gera ráð fyrir sjö daga gönguleið með gistingu í skálum á leiðinni. Ýmsa hagsmunaðila þarf að kalla að borðinu við vinnuna og var fundurinn á laugardag fyrsta skrefið í þeirri vegferð.

Steingrímur og Gunnlaugur segja leiðina „80% tilbúna." Skála vanti við Eyjabakka en sveitastjórn Fljótsdalshrepps hefur samþykkt skálasvæði þar á skipulagi. Að sunnanverðu vantar uppbygginu við upphafspunkt og göngubrýr yfir ár.

Merkja þarf leiðina eða setja upp GPS-punkta til að tryggja öryggi ferðafólks. Í þessu felast framkvæmdir upp á nokkrar milljónir króna.

Gunnlaugur sagði vaxandi eftirspurn eftir „slow tourism" þar sem ferðamenn leggja áherslu á að fara hægt yfir og taka eftir og njóta smáatriða í náttúrunni. Eftirspurn eftir gönguferðum hefur vaxið samhliða þessu en Gunnlaugur sagði ekki margar slíkar í boði hérlendis sem teljist í lengri kantinum.

Sú vinsælasta hérlendis er Laugavegurinn á milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Þar er umhverfið farið að láta á sjá vegna mikillar umferðar ferðamanna.

Steingrímur segir þess vegna mikilvægt að undirbúa vinnuna við Austurstræti vel. „Við vitum ekki hvenær ásóknin austur stóreykst en við viljum ekki lenda í sömu vandræðum."

Gengið um Illakamb. Mynd: Gunnlaugur B. Ólafsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.