Vonast til að geta komið upp húsnæði á fyrri helmingi ársins

Bæjarstjóri Múlaþings vonast til þess að hægt verði að reisa nýtt íbúðahúsnæði, sem hýst gæti einhverja þeirra sem misstu heimili sín í skriðuföllunum á Seyðisfirði í desember, á fyrri hluta þessa árs. Bæjarfulltrúar í Múlaþingi leggja áherslu að hratt gangi að tryggja þeim sem eru án heimilis öruggt skjól sem fyrst.

Bæjarstjórn samþykkti í dag að heimila ekki enduruppbyggingu á þeim tíu lóðum þar hús eyðilögðust í skriðunum 18. desember, fyrr en nýtt hættumat og fullnægjandi varnir gegn ofanflóðum liggja fyrir. Um er að ræða fimm íbúðalóðir og fimm undir aðra starfsemi. Ákvörðunin þýðir að Náttúruhamfaratrygging Íslands bætir eigendum tjónið samkvæmt brunabótamati.

En þótt tjónið sé bætt fjárhagslega eiga íbúar í þessum húsum eftir að finna sér nýtt heimili. Þá bætast við íbúar sem búa á svæði þar sem enn er rýming í gildi vegna skriðuhættu eða þeir sem hreinlega þora ekki að snúa aftur í heimili sín.

Áhersla á að vinna málin hratt

Bæjarfulltrúar lögðu á það áherslu á fundinum í dag að unnið verði að lausnum fyrir þennan hóp eins hratt og kostur er. „Ég hef ekki heyrt af mörgum sem ætla að fara en ég legg þunga áherslu að verkefni eins og komið var af stað í samstarfi við Bríet, verði bæði stækkað og unnið eins hratt og hægt er þannig að nýju húsnæði verði komið upp í vor eða sumar,“ sagði Hildur Þórisdóttir, bæjarfulltrúi Austurlistans og fyrrverandi forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði.

Bríet er verkefni á vegum Íbúðalánasjóðs, ætlað til að örva húsnæðismarkað á landsbyggðinni. Áður en skriðurnar féllu hafði verið ákveðið að í gegnum það yrði ráðist í nýbyggingar á Seyðisfirði.

„Það er mikilvægt að eyða óvissu í húsnæðismálum. Það var húsnæðisskortur á Seyðisfirði fyrir og þetta strekkir enn frekar á stöðunni. Það skiptir máli að sveitarfélagið haldi utan um þessi mál af festu,“ sagði Vilhjálmur Jónsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks og fyrrum bæjarstjóri á Seyðisfirði. Hann tók undir með Hildi að flýta þyrfti þeirri vinnu sem farin væri af stað og nýta þá sem þegar lægi að baki, svo sem við gerð deiliskipulags.

Vonast eftir húsnæði á fyrri hluta árs

Björn Ingimarsson sagði vinnu við nýtt íbúðarhúsnæði vegna aurflóðanna þegar vera komna af stað. „Ég er bjartsýnn á að við sjáum raunhæfar lausnir varðandi húsnæði sem gæti komist í notkun á fyrri hluta, eða fyrir mitt þetta ár.

Björn sagði einnig að allir Seyðfirðingar, sem einhverra hluta vegna væru ekki komnir aftur í sín hús, hefðu öruggt skjól á vegum Múlaþings. Flestum hefði fundið húsnæði á Seyðisfirði en þó ekki öllum. Þetta gildir út janúar, ekki hafi unnist tími til að staðfesta úrræðin til lengri tíma enn.

Lausnir fyrir þá sem enn eiga hús sem standa

Sem fyrr segir bætir Náttúruhamfaratrygging Íslands þau hús sem eyðilögðust að fullu samkvæmt brunabótamati. Óvissan nú ríkir um hús sem enn standa og teljast annað hvort á slíku hættusvæði að föst búseta sé þar ekki heimiluð eða fólk treysti sér ekki til að snúa aftur í. Ofanflóðasjóður kaupir hús á hættusvæðum og annað hvort rífir eða flytur en hefur gert það samkvæmt fasteignamati, sem er töluvert lægra en brunabótamatið. Nokkrir bæjarfulltrúar vöktu athygli á styðja þyrfti við þennan hóp.

Þröstur Jónsson, bæjarfulltrúi Miðflokks, hvatti til þess að sem fyrst yrði mótuð framtíðarstefna í samráði við bæjarbúa um hvernig ætti að byggja bæinn upp aftur og skipuleggja hann auk þess að horfa til varnarmannvirkja. „Hvernig á fólk að geta tekið ákvörðun um að flytja hús ef það veit ekki hver sýnin er til framtíðar. Því fyrr sem við setjum grófa stefnu um hvað á að gera við þessa hlíð fyrir ofan bæinn því betra.“

Heimild til afsláttar ef djúpt er niður á fast

Elvar Snær Kristjánsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og íbúi á Seyðisfirði, spurði út í kostnað við byggingar nýrra húsa. Að undanförnu hefur verið unnið að gerð nýrra húsa við götuna Múlaveg en þar hefur reynst langt niður á fast og kostnaður við gerð grunna orðið mun hærri en ráð var fyrir gert.

Stefán Bogi Sveinsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks, bendi á að í nýrri samþykkt um gatnagerðargjöld, sem tók gildi um áramót, væri ákvæðu um afslátt af gjöldum þegar djúpt væri niður á fast. Hann benti jafnframt á að stuðningur ríkisins við hreinsun og uppbyggingu á Seyðisfirði gæti meðal annars falist í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.