Vonast til að geta hafið hreinsun í dag

Vonast er til að hægt verði að hefja hreinsunarstarf á Seyðisfirði í dag og að íbúar á skriðusvæðum geti vitjað húsa sinna. Framhaldið skýrist eftir stöðufund sem hefst klukkan tíu.

„Við vonumst til að hægt verði að byrja að hreinsa í dag. Það skýrist á fundinum núna klukkan tíu. Við fengum ekki grænt ljós á að byrja neitt fyrr,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Múlaþings.

Hann segir að sérfræðingar Veðurstofunnar hafi í gærkvöldi og morgun farið yfir gögn um svæðið sem enn er skilgreint sem hættusvæði í austanverðum Seyðisfirði.

Rýmingu var aflétt í norðan Fjarðarár og völdum svæðum austan hennar í gær. Á eftir kemur einnig í ljós hvort hægt sé að aflétta rýmingu á fleiri svæðum.

„Við erum að skoða það en ég get ekkert fullyrt um það. Það er líka verið að horfa til þess að fólk geti komist heim til að huga að eignum sínum á öðum svæðum í fylgd björgunarsveita.“

Úrkoma hefur verið á Seyðisfirði í morgun á stytta á upp um hádegi. Eftir það er spáð þurru að mestu út vikuna. Boðað hefur verið til fundar með íbúum um stöðuna kl. 16:00 í dag á Facebook.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.