Vonast til að geta haldið áfram að aflétta rýmingum

Vonir standa enn til að hægt verði að aflétta rýmingu á að minnsta kosti hluta þess svæði sem fólki er ekki enn heimilt að dvelja á á Seyðisfirði. Ekki er hægt að slá föstu hvenær það verður en vonast er til að hægt verði að veita frekari upplýsingar er líður á vikuna.

Þetta var meðal þess sem fram kom á íbúafundi sem sveitarfélagið Múlaþing stóð fyrir á fundi með íbúum þeirra húsa sem enn sæta rýmingu. Þau standa frá vegamótum Hafnargötu og Ferjuleiru út að frystihúsi Síldarvinnslunnar, eða á því svæði sem stóra skriðan féll á þann 18. desember.

„Það ríkir enn óvissuástand um afléttingu rýmingar á þessu svæði. Við gerum okkur vonir um að fá skýrari hugmyndir um varðandi mögulega afléttingu rýmingar á hluta svæðisins mögulega í næstu viku,“ sagði Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs eftir fundinn.

„Það er ljóst að rýmingu verður aflétt á hluta svæðisins en það gæti verið háð því að fólk þurfi að búast við að rýma við ákveðnar aðstæður. Það skýrist jafnvel síðar í vikunni.“

Ekki ljóst um byggð fyrr en hættumat liggur fyrir

Björn segir að ekki sé hægt að gefa skýr svör um rýmingu eða hvort yfir höfuð búseta verði heimiluð á svæðinu og þá með hvaða hætti íbúum verði bættur sá skaði að geta ekki framar búið þar eða hvort hægt sé að verja byggðina með mannvirkjum.

„Ég á ekki von á að það liggi fyrir fyrr en endurskoðað hættumat liggur fyrir og það verður ekki strax. Við þrýstum hins vegar á um að fá skýrari skilaboð. Þetta er stóra spurningin sem ekki er hægt að svara í augnablikinu.“

Einhver hluti íbúanna treystir sér ekki til að fara heim, jafnvel þótt rýmingunni væri aflétt. Staða þess gæti orðið snúin því ofanflóðasjóður kaupir aðeins hús sem teljast á slíku hættusvæði að þar sé bannað að dvelja. „Við höfum alltaf reiknað með að þetta taki tíma fyrir fólk. Við munum skoða allar mögulegar leiðir til að aðstoða það.“

Forgangsatriði að opna leið í gegnum bæinn

Björn segir fundinn hafa verið góðan þótt ekki hafi verið hægt að svara nærri öllu því sem brann á íbúum. Þeir hafa ekki getað farið heim til sín í meira en hálfan mánuð og eru einhverjir orðnir uggandi um framtíð sína.

„Það er eðlilegt að fólk sé ekki ánægt en við áttum gott samtal. Fólk veltir ýmsu fyrir sér og við héldum fundinn þótt við hefðum engin skýr skilaboð eða gætum svarað öllu. Fólk má ekki vera feimið að hafa samband við okkur því við erum hér til að reyna að vinna að lausnum.“

Á fundinum var einnig farið yfir það hreinsunarstarf sem í gangi er á svæðinu og hvað sé framundan í því. Forgangsatriði er að Hafnargötuna þannig að fært verði út fyrir Tækniminjasafnið. „Við erum bjartsýn á að það takist fyrir lok vikunnar. Það hefur mikið að segja fyrir þá starfsemi sem er handan lokaða svæðisins. Síðan verður það nokkurra mánaða verk að klára heildarhreinsunina.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.