Vinna við varnargarða tefst vegna bleytu

Hreinsunarstarf gengur vel á Seyðisfirði. Sökum úrkomu um helgina var ekki unnið við varnargarða í gærdag og heldur ekki í dag. Tækin sem verið er að nota eru stór og þung og því vinnst illa undan þeim á meðan jarðvegurinn er svona blautur.

Þetta kemur fram í yfirliti á vefsíðu Múlaþings. Þá liggur vinna við keyrslu úr dammi við Búðará og við Slippinn einnig niðri af sömu ástæðu. Áframhald verður á neðangreindum verkefnum er líður á vikuna.

Á vefsíðunni segir að unnið er við áframhaldandi hreinsun á svæðinu þar sem Framhúsið stóð en því verki er að mestu lokið. Einnig er áframhaldandi hreinsun í Slippnum. Og unnið er við að hreinsa svæði Tækniminjasafnsins en sú vinna er að mestu búin.

Hvað bráðavarnir varðar segir að mokað hafi verið upp úr damminum í Búðaránni en akstur geymdur meðan þýðan er. Unnið er í görðunum ofan við Slippinn þegar aðstæður leyfa aftur, töluvert umframefni þar sem þarf að fjarlægja. Verið er að vinna að hönnun á svæðinu milli Fossgötu og Búðarár og ræsi undir Hafnargötu.

Lagfæringar á lækjarfarvegi ofan við Botnahlíð 33-35, og farvegi Dagmálalækjar innan við Botnahlíð 32, halda áfram þegar aðstæður leyfa.

Munahreinsun gengur mjög vel og er talsvert á undan því sem áætlað var. Vinna er í gangi við flokkun muna úr Tækniminjasafni, að því er segir á vefsíðunni.

Mynd: Ingólfur Haraldsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.