Vinna við endurskoðun hættumats og varnarkosta að komast á fullt

Verkfræðingar og sérfræðingar Veðurstofu Íslands eru þessa dagana að komast á fulla ferð með endurskoðun hættumats og athuganir á framtíðarvarna gegn skriðuföllum í sunnanverðum Seyðisfirði.

Þetta var meðal þess sem fram kom á upplýsingafundi fyrir íbúa Seyðisfjarðar á mánudag. Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur frá Eflu fór yfir varnarmöguleika og Tómas Jóhannesson, fagstjóri á ofanflóðadeild Veðurstofunnar, yfir vöktunarkerfi og hættumatið.

Vinna við bráðabirgðavarnir hafa staðið yfir frá því hægt var að hefja framkvæmdir eftir skriðurnar. Lokið er við að grafa 400 metra langan skurð ofan götunnar Botnahlíðar inn í Dagmálalæk. Sagði Jón Haukur það hafa gengið vel og virkni skurðarins meiri en reiknað var með.

Búið er að hreinsa farveg lækjarins og efla varnarkanta þar. Áfram er unnið við að moka upp úr setþró í Búðará þegar aðstæður eru til. Garðar ofan við svæði skipasmíðastöðvarinnar hafa tekið á sig mynd en eftir er að opna farveg til að veita vatni niður svæðið.

Skoða aurkeilu utan Búðarár

Jón Haukur fór yfir næstu skref, svo sem áframhaldandi varnir ofan Botnahlíðar með skurði og varnargarði. Hann sagði að haft yrði samráð við íbúa þar áður en ráðist yrði í framkvæmdir því um óraskað svæði er að ræða.

Þá er til skoðunar að koma upp grjótvarnarneti í Botnabrúninni. Möguleikarnir á því skýrast í þessari viku en lengri tíma mun taka að gera það að veruleika. Ofan húsanna sem standa næst Búðará að utanverðu er verið að athuga að gera jarðvegskeilu sem brotið gæti upp ofanflóð. Þar stendur enn raflínustaur upp úr skriðunni og sagði Jón Haukur að ofan þess væri flati sem áhugi væri á að nota. Þá er framundan hönnun og samráðsferli út af veituskurði til að veita vatni svo að segja frá Nautaklauf og út í Búðará.

Tími í að þróa og keyra tölvulíkön

Á eftir því verður ráðist í frumathugun á framtíðarvarnarkostum. Búa þarf til tölvulíkön miðað við bráðabirgðavarnirnar, teikna síðan inn varanlegar varnir inn í líkönin og keyra prufukeyrslu á þeim. Byrjað verður á svæðinu við Búðarána sjálfa og síðan haldið áfram inn eftir.

„Þá förum við að sjá hvað hægt er að gera í vörnum láglendinu, þarna erum við ekki að tala um drenlagnir eða annað í fjallinu. Með þessu sjáum við hversu stórum atburðum ofan úr fjallinu er hægt að taka við. Þetta verður aðalefnið í frumathugunarskýrslunni í vor. Þetta verður ansi mikil vinna þangað til.“

Hættumat verður tilbúið í skrefum

Tómas fór yfir bráðabirgðarýmingarkort sem verið er að kynna fyrir Seyðfirðingum og liggur meðal annars frammi í Herðubreið. Það byggir á hættumati sem lokið var við árið 2019, en einnig einhverjum nýjum upplýsingum.

Veðurstofan er byrjuð að vinna nýtt hættumat fyrir svo að segja allan sunnanverðan Seyðisfjörð og verður það væntanlega birt í áföngum. Niðurstöður matsins fyrir svæðið í kringum Stöðvarlæk og inn undir Búðará hefur þegar verið kynnt. Verið er að vinna mat fyrir svæðið næst ánni og er þess vænst fljótlega. Þar þarf að taka breytinga sem urðu í hamförunum. Eins þarf að skoða skoða svæðið utan Stöðvarlækjar þar sem uppi í hlíðinni eru jarðvegsflekar sem gætu hlaupið fram.

Atvinnusvæðið var á svæði C fyrir og breytist það ekki. Nýtt hættumat verður gert fyrir svæðið fyrir innan Búðará en Tómas býst ekki við að það breytist mikið. Það sem nú væri í gildi þar gefi í stórum dráttum raunsanna mynd sem eig að duga í mestalla stefnumótun. Rannsóknir í vor og sumar munu þó leiða það betur í ljós.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.