Vinna hafin í stóru skriðunni á ný

Hreinsunarstarf er aftur hafið á slóðum stóru skriðunnar sem féll á Seyðisfjörð föstudaginn 18. desember eftir hlé vegna áramóta og hlýinda. Stefnt er að því að komast í gegnum skriðuna í vikunni.

Jens segir að vinnan við hreinsunina sé nú að komast í fastar skorður og þann farveg sem hún verði í næstu daga. Í stóru skriðunni eru vinnutækin komin á móts við Silfurhöllina, skrifstofuhúsnæðið sem stóð áður við Hafnargötu 28.

„Það er unnið markvisst í hreinsunarstarfi í dag. Veðrið er stöðugt, við myndum kjósa að hafa það 2-3 gráðum kaldara en jarðvegurinn er stöðugur og ekki talin nein skriðhætta,“ segir Jens Hilmarsson, vettvangsstjóri.

Verið er að hreinsa rústir Fram-húss, að Hafnargötu 6, sem eyðilagðist í flóðinu og segir Jens það ganga vel. „Við erum líka byrjuð að vinna í skriðustálinu í áttina að Tækniminjasafninu og stefnum á að reyna að komast í gengum það í vikunni.“

Vegna hlýinda í gær var ekki tekin nein áhætta með vinnu í kringum stóru skriðuna í gær. Dagurinn var þess í stað notaður til að hreinsa í hringum bensínstöðina og húsið Breiðablik sem stóð áður við Austurveg en færðist úr stað í skriðu aðfaranótt 18. desember.

„Við lukum við þá vinnu sem var áætluð í námunda við það svæði í gær, að moka það og planið við bensínstöðina gróflega.“

Daginn sem skriðurnar féllu var ekki hægt að taka bensín á Seyðisfirði því planið var fullt af aur. Þeim var hins vegar komið í stand þannig að bæjarbúar gátu tekið bensín, þótt stöðin sjálf væri á rýmingarsvæði. „Við ruddum fljótlega að bensíndælunni og tengdum hana. Við höfum lagt áherslu á að sá búnaður sem þarf til að reka bæjarfélag virki,“ segir Jens.

Í fyrstu er aðeins hreinsað gróflega en svæðin eru fínkembd í framhaldinu. Búið er að ráða starfsfólk á vegum Múlaþings til að gæta að vörslu muna sem finnast í skriðunni, í samræmi við eigendur fasteigna á hverju graftrarsvæði.

Við hreinsunina eru notuð stórar vinnuvélar og brýnir Jens við bæjarbúa að sýna tillitssemi, fara ekki inn á skriðusvæðið að óþörfu og fá leyfi hjá vettvangsstjórn þurfi þeir nauðsynlega að komast inn á það. Að sama skapi er brýnt á hverjum morgni fyrir verktökum að fara með gát og leggja vélunum þannig að þær valdi Seyðfirðingum sem minnstum óþægindum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.