Villa hækkar loðnukvótann í 61 þúsund tonn

Við endurútreikninga loðnumælinga samkvæmt gæðaferlum Hafrannsóknastofnunar kom í ljós villa við úrvinnslu á bergmálsmælingum á stærð hrygningarstofns loðnu í vikunni sem hefur nú verið leiðrétt. Niðurstaða þeirrar mælingar hækkaði um 19 þúsund tonn, eða upp í 338 þúsund tonn. Þetta þýðir að leiðrétt loðnuráðgjöf um afla á vertíðinni 2020/21 er 61 þúsund tonn.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hafrannsóknarstofunnar. Þar segir að eins og fram hefur komið áður er grunnur ráðgjafarinnar mat á stærð hrygningarstofns loðnu sem er byggt á meðaltali tveggja mælinga. Annars vegar á niðurstöðum bergmálsleiðangurs í desember og hins vegar á samanlögðum niðurstöðum tveggja bergmálsleiðangra í janúar.

Fyrri mælingin í janúar, upp á samtals 144 þúsund tonn, var takmörkuð að því leiti að engar mælingar voru gerðar í Grænlandssundi sökum hafíss. Enn fremur var magn loðnu á austur hluta svæðisins langt undir því sem mældist í desember.

Seinni mælingin í janúar var á afmörkuðu svæði úti fyrir Austfjörðum, og þar mældust um 338 þúsund tonn. Yfirgnæfandi líkur eru á að loðnan austan við land hafi ekki verið hluti af mælingunni fyrr í mánuðinum og því eru þessar tvær mælingar teknar saman en þær gefa mat upp á 482 þúsund tonn og metnar til jafns á við mælinguna frá desember við mat á stærð stofnsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.