Vill að vetrarþjónusta á Öxi verði bætt verulega

„Sveitarstjórn Múlaþings leggur áherslu á mikilvægi þess að vetrarþjónusta á Öxi verði bætt verulega frá því sem nú er enda er um mikilvæga samgöngutengingu að ræða á milli byggðakjarna innan sveitarfélagsins.“


Þetta kemur fram í tillögu sem samþykkt var samhljóða á fundi sveitarstjórnarinnar í gærdag. Á fundinum lá fyrir ósk frá heimastjórn Fljótsdalshéraðs um að sveitarstjórn Múlaþings taki upp viðræður við Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið um bætta vegþjónustu á vetrum yfir Öxi umfram þá reglu sem í gildi er.

Í tillögunni segir að einnig er vert að hafa í huga öryggisþáttinn þar sem þetta snýr einnig að aðgengi að heilbrigðisþjónustu, brunavörnum og flugsamgöngum. Það er mat sveitarstjórnar að eðlilegt sé að færa þjónustustig Axarvegar vegna vetrarþjónustu af þjónustuflokki 4 á þjónustuflokk 2.

„Jafnframt leggur sveitarstjórn Múlaþings áherslu á að útboði vegna framkvæmda við nýjan veg yfir Öxi verði hraðað þannig að framkvæmdir geti hafist á árinu eins og fyrirhugað hefur verið,“ segir í tillögunni.

„Sveitarstjóra falið að koma framangreindu á framfæri við Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið með ósk um viðræður vegna þessa sem fyrst.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.