Vilja safna 10 milljónum króna fyrir Tækniminjasafnið

„Tækniminjasafn Austurlands hefur hrundið af stað hópfjármögnun á Karolina fund sem hófst í dag, 8. febrúar og mun standa til 15. mars. Markmiðið er að safna 70.000 evrum, um 10 milljónum íslenskra króna.“

Þetta kemur fram í tilkynningu um málið. Þar segir að Karolina fund hefur gert þá undantekningu á starfsreglum sínum að ekki er nauðsynlegt að söfnunin nái að fullu markmiði sínu. Ef minna safnast mun það engu að síður gagnast safninu.

Ennfremur segir að Tækniminjasafn Austurlands á Seyðisfirði kallar á hjálp eftir að gríðarstórar aurskriður féllu á safnasvæði þess þann 18. desember 2020. Mikil mildi er að ekkert manntjón varð í þessum náttúruhamförum sem skilja eftir stórt sár í landslagi og samfélagi Seyðisfjarðar.

„Eyðileggingin sem safnið stendur frammi fyrir er gríðarleg. Skriðan gjöreyðilagði tvö húsa þess auk þess sem aðrar fasteignir og safnasvæðið sjálft urðu fyrir umtalsverðum skemmdum. Þá varð stór hluti safnkostsins, hjarta og undirstaða hvers safns, fyrir skriðunni,“ segir í tilkynningunni.

„Margir ómetanlegir safnmunir með mikla og merka sögu eru horfnir að eilífu auk hinna sögulegu húsa og við því er ekkert hægt að gera. En öðrum gripum hefur verið bjargað úr rústunum, í misgóðu ástandi þó.

Mjög tímafrek vinna er fram undan við að koma skipulagi á, hreinsa og skrá það sem við munum finna. Til þess þurfum við að geta greitt fólki laun, komið upp nýju geymsluhúsnæði og keypt þau aðföng sem til þarf til að tryggja eins góða varðveislu og hægt er“.

Um þessar mundir kemur hópur safnmanna undir forystu Þjóðminjasafnsins hálfsmánaðarlega í þriggja daga vinnubúðir við að fara í gegnum þá safngripi sem finnast. Sú vinna fer fram í mjölskemmu Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar