Verið að meta aðstæður á Seyðisfirði

Sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands reyna nú að leggja mat á skriðhættu í Seyðisfirði. Enn er ekki talið óhætt fyrir aðra að vinna eða fara inn á svæðið. Sjónrænt mat gefur til kynna töluvert tjón.

Sérsveitarmenn frá ríkislögreglustjóra með flygildi og sérfræðingar Veðurstofu Íslands vinna nú saman að því að kanna aðstæður eftir skriðuna sem féll á Seyðisfirði í gær og stöðuna í fjallinu.

„Þeir vinna saman að því að skoða þessa helstu staði. Það tekur smá tíma. Þegar þeir hafa farið yfir svæðið ætti hættumatið að skýrast. Þá er hægt að taka afstöðu til þess hvort og hvenær hægt verði að hleypa fólki inn á svæðið,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

„Það er í algjörum forgangi að verja líf og limi fólks. Við setjum fólk ekki í hættu. Verðmætabjörgun bíður þar til allt er öruggt. Við vinnum þetta eins og hægt er, við vitum að það eru talsverð verðmæti í húfi.“

Sömuleiðis er verið að skoða ummerki eftir skriðuna í gær sem kom niður á svæðinu í kringum Búðará og olli gríðarlegu tjóni. „Hún hafði áhrif á að minnsta kosti tíu hús. Sjónrænt mat gefur til kynna töluvert tjón á einhverjum húsum. Almennilegt mat verður þó ekki fyrr en hægt verður að skoða húsin.“

Af meðfylgjandi mynd, sem tekin var í morgun, má sjá að tjónið er gríðarlegt og til að mynda svæði Tækniminjasafns Austurlands stórskaðað.

Hann segir hug starfsmanna almannadeildarinnar hjá Seyðfirðingum en bærinn. „Okkar hugur er hjá fólkinu í þessum ömurlegu aðstæðum að hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Það er alltaf sárt en enn sárara rétt í aðdraganda jóla þegar allir eru viðkvæmari.“

Mynd: Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.