Útlit fyrir rýmingu næsta sólarhringinn

Rýming verður í gildi bæði á Eskifirði og Seyðisfirði næsta sólarhringinn hið minnsta. Metið verður um klukkan ellefu í fyrramálið hvort hægt verði að hleypa íbúum heim til að huga að eigum sínum. Engra er saknað eftir skriðuföll á Seyðisfirði í dag og engin slys verið tilkynnt.

Samkvæmt stöðuskýrslu almannavarna, sem send var út klukkan 21:20 í kvöld, verður rýming í gildi á báðum stöðum að minnsta kosti næsta sólarhringinn.

Skömmu fyrir klukkan þrjú í dag féll stór aurskriða úr Botnabrún, milli Búðarár og Stöðvarlækja á tíu hús. Ekki hefur verið hægt að meta tjón á staðnum. Í kjölfarið var ákveðið að rýma kaupstaðinn að fullu og öll umferð þar nú bönnuð.

Staðan verður endurmetin klukkan ellefu í fyrramálið. Í kjölfarið verður íbúum þar send tilkynning um hvort og hvernig þeir geti athugað með eignir sínar.

Ljóst er að skriðurnar hafa valdið miklu tjóni á mannvirkjum. Í tilkynningu frá Mílu segir að ekkert tjón hafi enn orðið á fjarskiptastöðvum fyrirtækisins. Í dag var unnið hörðum höndum við að dæla frá húsi sem hýsir búnað fyrirtækisins til að verja hann. Í tilkynningunni er þakkað fyrir veitta aðstoð.

Rafmagn fór af stórum hluta bæjarins eftir skriðurnar í dag. Það er sagt komið á aftur að miklu leyti en einhver hús eru enn án veiturafmangs, meðal annars tækjahús Mílu. Varafl þar dugir fram á mánudagskvöld. Ráðstafanir verða gerðar til að tryggja áframhaldandi rekstur ef rafmagnsleysi dregst lengur.

Auk viðbragðsaðila af Austurlandi hefur borist aðstoð frá Norðurlandi eystra í dag auk sérsveitar ríkislögreglustjóra.

Á Eskifirði komu í ljós að sprungur í gamla Oddsskarðsveginum höfðu stækkað. Í kjölfarið þurftu yfir 160 manns að yfirgefa heimili sín.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.