Umsvif fiskeldisins verða sjáanleg um leið og leyfi fæst

Fiskeldi Austfjarða mun byrja að ráða starfsfólk til starfa á Seyðisfirði um leið og fyrirtækið fær leyfi til að hefja starfsemi þar. Áætlanir hafa gert ráð fyrir að það verði strax í haust.

Þetta var meðal þess sem fram kom á opnum fundi um mat á umhverfisáhrifum fiskeldisins í dag.

Fiskeldi Austfjarða hefur sótt um heimild til að hefja eldi á 10 þúsund tonnum af laxi, 6.500 tonnum af frjóum laxi og 3.500 tonnum af ófrjóum. Þar með verður burðarþol fjarðarins fullnýtt.

Fyrirtækið áformar að vera með eldiskvíar á þremur stöðum í firðinum. Tvö þeirra verða í notkun hverju sinni en það þriðja í hvíld. Hún varir í að minnsta kosti 90 daga, en mest í 12 mánuði eftir mati sérfræðinga á lífríkinu þar undir.

Það efni sem til falla frá eldinu eru fóðurleifar og úrgangur frá fiskunum. Hóflegt magn þessara efna getur glætt lífríkið næst kvíunum og benti Þórður Þórðarson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, að reynsla af kvíum þess í Berufriði væri hvítfiskur og fleiri lífverur sæktu frekar að kvíunum eftir æti. Ofmettun getur valdið því að lífríkið undir kvíunum skaðist, en sá skaði á að ganga til baka með hvíldinni.

Áformin hafa vakið hörð viðbrögð. Veiðifélög á Austfjörðum hafa lagst gegn þeim og í gær var stofnað félag Seyðfirðinga til að berjast gegn eldinu. Í kynningunni var meðal annars komið inn á að bætur búnaður hefði fækkað slysasleppingum frá norsku fiskeldi verulega síðustu ár auk þess sem umhverfi á Austfjörðum, svo sem í Seyðisfirði þar sem sjórinn er frekar kaldur, vinni frekar gegn sjúkdómum.

Í kynningunni var nokkrum sinnum minnst á fjórða eldissvæðið, við Háubakka, sem er í frummatsskýrslunni. Það hefur vakið nokkur viðbrögð enda nánast ofan í byggðinni í Seyðisfirði auk þess sem óttast hefur verið að það gæti þrengt að skemmtiferðaskipum.

Þórður sagði að fyrirtækinu hefði borist talsvert af athugasemdum við það eldissvæði, enda hefur verið boðað að falli verði frá því. Þórður ítrekaði að það yrði gert en Háubakkar væru inn í kynningunni því Fiskeldið muni senda Skipulagsstofnun erindi um frávik frá matsskýrslu eftir að athugasemdafrestur við frummatsskýrsluna lýkur, en hann er til 26. janúar.

Þá kom fram í kynningunni að áætlað er að til verði 15-25 stöðugildið við eldið á Seyðisfirði, en 130 bein og um 100 bein störf á Austurlandi. Aðspurður sagðist hann búast við að 6-8 starfsmenn yrðu ráðnir til starfa fljótlega eftir að leyfi verði gefið fyrir eldinu.

„Samkvæmt okkar bjartsýnustu spám verður það í haust. Fólk verður vart við okkur á Seyðisfirði um leið og leyfisveitingum lýkur. Við þurfum strax 6-8 starfsmenn til að sinna fyrsta eldissvæðinu. Okkar nærvera og áhrif aukast síðan eftir því sem á líður,“ sagði Þórður.

Hann bætti því við að fyrirtækið myndi horfa eftir að kaupa húsnæði, bæði undir starfsemina í landi og starfsfólk. „Í heildina er þetta fjárfesting upp á 7-10 milljarða í tækjakosti og lífmassa. Slíkar framkvæmdir hafa mikil áhrif, bæði á efnahag og samfélag, sem fólk sér fljótt. Við greiðum um 200 milljónir í fiskeldissjóð á ári og höfum lagt áherslu á að þeir fjármunir renni að mestu til Seyðisfjarðar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.