Um 20 norsk skip á loðnumiðunum

Um 20 norsk skip hafa verið að veiðum á loðnumiðunum að undanförnu. Allmörg þessara norsku skipa hafa landað afla á Fáskrúðsfirði, Eskifirði og í Neskaupstað.


Þetta kemur fram á vefsíðu Síldarvinnslunnar. Þar segir að sannkölluð loðnustemming ríki nú á Austfjörðum.

„Þó kvótinn sé ekki stór virðist hann duga til að skapa stemmninguna og það er bjart yfir austfirsku loðnubæjunum. Íslensk loðnuskip liggja að vísu enn bundin við bryggju og bíða þess að hrognafylling loðnunnar aukist, en grænlensk, færeysk og ekki síst norsk skip hafa verið að veiðum úti fyrir Austfjörðum,“ segir á vefsíðunni.
 
Ennfremur segir að hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað ríki ótvíræð loðnustemmning. Fyrirtækið gerir út tvö skip til loðnuveiða auk þriðja skipsins sem er í eigu dótturfélagsins Runólfs Hallfreðssonar ehf.

„Áhafnir þessara skipa hafa verið í startholunum og gert er ráð fyrir að þau haldi jafnvel til veiða um komandi helgi. Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar starfa um 80 manns á loðnuvertíð og þar hefur verið fryst loðna úr norskum skipum allan sólarhringinn að undanförnu,“ segir á vefsíðunni.

Þá kemur fram að nær öll loðnan fer til manneldisvinnslu en ef eitthvað af aflanum færi til framleiðslu á mjöli og lýsi þá starfa um 20 manns í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar.

„Á hinu nýja netaverkstæði Hampiðjunnar í Neskaupstað hafa verið miklar annir en þar starfa 7-8 manns að öllu jöfnu. Svo mikil verkefni hafa fylgt loðnuvertíðinni að Hampiðjan hefur sent viðbótar mannskap til starfa í Neskaupstað,“ segir einnig.

Mynd: Unnið við viðgerð á loðnunót norska skipsins Rav hjá Hampiðjunni. Mynd Smári Geirsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.