Tveir starfsmenn ráðnir til rannsóknaseturs HÍ á Breiðdalsvík

Tobias Björn Weisenberg og María Helga Guðmundsdóttir hafa verið ráðin til starfa við rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík. Þau eru væntanleg austur í vor.

Þetta kemur fram í frétt frá Háskóla Íslands um setrið sem byggir á grunni Breiðdalsseturs. Áhersla setursins er á jarðvísindi.

Tobias Björn verður forstöðumaður setursins en þrír sóttu um stöðuna. Hann lauk doktorsgráðu í jarðvísindum frá Albert-Ludwigs háskólanum í Freiburg árið 2009. Doktorsritgerð hans ber titilinn „Zeolites in fissures of crystalline basement rocks“.

Frá árinu 2014 hefur hann starfað sem jarðefnafræðingur hjá ÍSOR en áður kenndi hann við jarðvísindadeild Háskólans í Oulu og gegndi nýdoktorsstöðu við Texasháskóla í Austin. Hann kemur formlega til starfa 1. maí.

María Helga Guðmundsdóttir verður verkefnastjóri setursins. Hún hefur meistarapróf í jarð- og umhverfisfræðum frá Stanford-háskóla og er einnig með BS-próf í þeim fræðum auk BA-prófs í þýskum fræðum frá sama skóla.

Þá hefur hún lagt stund á nám í japönsku máli og menningu við Háskóla Íslands. Hún hefur fjölbreytta rannsóknarreynslu í jarð- og umhverfisvísindum, en síðustu ár hefur hún einkum starfað við þýðingar og prófarkalestur, auk þess að vera karateþjálfari.

María hefur þegar hafið störf. Fyrst um sinn er hún með starfsaðstöðu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands í Garðabæ, en sú stofnun er í samstarfi við HÍ um vinnuna í rannsóknarsetrinu. Hún er síðan væntanleg austur með vorinu.

„Með stofnun nýs rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Breiðdalsvík þar sem megináhersla verður lögð á jarðvísindi eflist starfsemi rannsóknasetra háskólans um land allt. Viðfangsefni og áskoranir samtímans krefjast þverfræðilegrar nálgunar og því erum við mjög spennt fyrir frekari eflingu starfsemi rannsóknasetranna.

Með stofnun setursins á Breiðdalsvík og þessu öfluga fólki stóreflist starfsemin á Austurlandi,“ segir Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands. Fyrir er starfandi rannsóknasetur Háskóla Íslands á Austurlandi með aðsetur á Egilsstöðum. Setrin eru alls tíu um allt land.

Mynd: Stofnun rannsóknarsetra HÍ.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.