Tveir eftir í einangrun

Þrír af þeim fimm einstaklingum sem hafa verið í einangrun vegna Covid-19 smits á Austurlandi hafa fengið staðfest að þeim sé batnað og teljast því útskrifaðir og lausir úr einangrun.

Tveir eru enn í einangrun en gert er ráð fyrir að þeir útskrifist á næstu dögum, að því er fram kemur í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands. Öll smitin fimm greindust við landamæraskimun.

„Við virðumst því vera að komast yfir þennan smáskafl sem myndaðist fyrir rétt um hálfum mánuði síðan í kjölfar smits á landamærum. Miklu hefur ráðið að leiðbeiningum um hegðun í einangrun hefur verið fylgt í hvívetna. Þannig böslum við þetta enda saman hér eftir sem hingað til og tryggjum eftir bestu getu að enginn hrasi á leiðinni,“ segir í tilkynningunni.

Samkvæmt tölum af Covid.is eru tveir eftir í sóttkví í fjórðungnum. Þar má einnig sjá tölur um bólusetningu, sem virðist ganga vel á Austurlandi. Sé horft til hlutfalls íbúa eru Austfirðingar í þriðja sæti yfir flesta sem hafa hafið bólusetningu, á eftir höfuðborgarsvæðinu og Norðurlandi og í öðru sæti á eftir Suðurnesjum í hlutfalli íbúa sem lokið hafa bólusetningu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar