Troða marvaða við að halda rekstrinum á floti eftir skriðurnar

Jonathan Moto Bisagni, framkvæmdastjóri Austurlands Food Coop, segir skriðuföllin á Seyðisfirði hafa valdið rekstraraðilum milljónum króna í skaða sem ekki fáist bættur. Hann telur þörf á að ríkið styðji betur við rekstraraðila þar.

Þetta kemur fram í viðtali í Jonathan í Reykjavík Grapevine. Þar metur hann kostnað fyrirtækisins vegna skriðufallanna 3-5 milljónir. Hann tekur þó fram að aðrir hafi farið verr úr og nefnir að hárgreiðslustofa bæjarins hafi þurrkast út.

Vandamál rekstraraðila sé hins vegar að aðeins húsnæði hafi verið tryggt en engar bætur fáist vegna rekstrarstöðvunar. Komið hefur verið á stofn hvatasjóði á vegum ríkisins til atvinnurekstrar á Seyðisfirði en Jonathan segir óhentugt að þar sé lögð áhersla á nýsköpun sem fyrirtækjaeigendur sem berjist í bökkum og séu í sárum hafi vart tíma fyrir. Þau þyrftu frekar langtímastuðning í formi lána með ríkisábyrgð.

Hann kveðst hafa vakið athygli Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra á málinu sem hafi hringt í hann og hann átt gott samtal við bæði hana og starfsmann ráðuneytisins. Hann kveðst einnig þakklátur fyrir stuðning og ráðgjöf starfsmanna Austurbrúar.

Austurlands Food Coop hefur að undanförnu selt sushi í Reykjavík. Jonathan segir að það hafi skipt sköpum til að halda fyrirtækinu á floti og byrja að vinna á skuldum sem safnast höfðu upp. Hann kveðst bjartsýnn því framundan sé besti tími ársins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.