Traktorinn varðveittur sem táknmynd um það sem gerðist - Myndir

Fyrsta dráttarvélin, sem kom til Seyðisfjarðar, var grafin upp upp úr rústum Tækniminjasafns Austurlands síðasta föstudag. Vélin er nokkuð skemmd en til stendur að varðveita hana ásamt fleiri völdum gripum til minningar um skriðuföllin. Hús Vélsmiðju Jóhanns Hanssonar er verr farið en talið var í fyrstu.

„Þetta er International, árgerð 1924. Hann markar upphaf vélvæðingar í landbúnaði á Seyðisfirði því þetta er fyrsta dráttarvélin sem kom hingað. Seyðfirðingar keyptu hann og notuðu saman.

Við óttuðumst að hann hefði færst til í skriðuföllunum en hann er hérna enn enda mikill járnklumpur. Hann er þó töluvert skemmdur og brotinn,“ segir Zuhaitz Akizu, forstöðumaður Tækniminjasafns Austurlands.

Tækniminjasafnið varð fyrir miklum skaða í stóru skriðunni sem féll á Seyðisfjörð þann 18. desember og var aðalbygging þess að Hafnargötu 38, sem áður hýsti Vélsmiðju Jóhanns Hanssonar, dæmd ónýt. Innsti hluti byggingarinnar fór strax í skriðunni en útendinn stóð eftir. Nú hefur hins vegar komið í ljós að hann er meira skemmdur en talið var.

„Við vorum bjartsýn á að útendi Vélsmiðjunnar væri ekki svo illa farinn en þegar fórum að grafa frá steyptum vegg á föstudagsmorgunn sáum við sprungur og halla í burðarvegg Vélsmiðjunnar sem þýðir að hún er ekki traust. Við þurfum því að tæma hana.“

Vélsmiðjan var byggð árið 1906. Í henni var keðjudrifinn vélbúnaður frá árinu 1906 sem enn virkaði fyrir skriðurnar. „Þessi búnaður er sá elsti sem varðveist hefur hérlendis. Við höfum náð að grafa upp töluvert af keðjunum. Við höfum líka séð í rennibekkinn sem var sérsmíðaður og sá stærsti á sinni tíð. Við höfum líka náð að bjarga fleiri lykiltækjum en svo eru líka verkfæri sem við höfum ekki fundið enn.“

Hlutirnir sem koma undan skriðunni eru margir illa farnir eftir bæði aurinn og þrýstinginn sem fylgdi. Sumum þýðir ekki annað en henda en öðrum verður haldið eftir gagngert til minningar um það sem gerðist.

„Sumt er algjörlega í klessu en sumt ætlum við að varðveita og setja upp á sýningu um skriðuföllin. Við ætlum að varðveita traktorinn sem táknmynd um þau. Hér verður til ný þekking á hverjum degi um hvernig söfn virka og hvernig náttúruhamfarir geta ógnað þeim.“

Sfk Forseti 20210205 0051 Web
Sfk Forseti 20210205 0053 Web
Sfk Forseti 20210205 0055 Web
Sfk Forseti 20210205 0056 Web
Sfk Forseti 20210205 0058 Web
Sfk Forseti 20210205 0059 Web
Sfk Skrida Tekmus 20210205 0012 Web
Sfk Skrida Tekmus 20210205 0026 Web
Sfk Skrida Tekmus 20210205 0029 Web
Sfk Skrida Tekmus 20210205 0030 Web
Sfk Skrida Tekmus 20210205 0032 Web
Sfk Skrida Tekmus 20210205 0038 Web
Sfk Skrida Tekmus 20210205 0049 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.