Toppskíðalyftan í Oddskarði ekki opnuð meira í vetur

Ljóst er að toppskíðalyftan í Oddskarði verður ekki opnuð meira í vetur. Miklar skemmdir urðu á henni í óveðri fyrir nokkru síðan.

Fjallað er um málið á vefsíðu Fjarðabyggðar. Þar segir að talsvert hafi verið spurt að undanförnu um stöðu mála á topplyftunni í Oddsskarði, en eitt mastur lyftunnar skemmdist mikið í óveðri í vetur og hefur lyftan þar af leiðandi verið lokuð. Unnið hefur verið að viðgerð að undanförnu en nú er ljóst að ekki verður unnt að opna lyftuna í vetur.

„Það lá fyrir í upphafi að um talsvert miklar skemmdir var að ræða, og ljóst að fara þyrfti í mikla viðgerð á toppmastri lyftunnar sem hafði skemmst. Sjóða þarf stálbita í mastrið til að laga það, en hann þarf að koma erlendis frá.  Unnið var að málinu af kappi til að reyna að hafa lyftuna klára fyrir páskavertíðina sem senn fer í hönd,“ segir á vefsíðunni.

„Því miður kom það í ljós þegar stálbitinn kom til landsins fyrir nokkru að hann hafði verið vitlaust afgreiddur, og var of lítill. Þar af leiðandi þarf að panta nýjan bita í réttri stærð, en vegna tafa á flutningum vegna COVID-19 er ljóst að það verður ekki hægt að koma honum til landins í tæka tíð. Topplyftan í Oddsskarði mun því ekki komast aftur í gagnið á yfirstandandi skíðavertíð, en hún mun verða klár fyrir þá næstu.“

Mynd: fjardabyggd.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.