Töluvert mikill eldur í nótapoka á Eskifirði

Töluvert mikill eldur kom upp í nótapoka á svæði veiðarfæraverkstæðis Egersund á Eskifirði um klukkan átta í kvöld. Vel gekk þó að ráða niðurlögum eldsins.


„Útkallið kom klukkan 19:57. Ég var nýkominn heim, bý 200 metra frá og var snöggur á svæðið með undanfarabíl.

Annar slökkvimaður sem býr hér á Eskifirði kom fljótt til mín. Saman gátum við varið gámaskúra sem voru þarna við hliðina þar til slökkviliðið kom á staðinn. Það var mjög fljótt á vettvang,“ segir Þorbergur Hauksson, aðstoðarslökkvistjóri í Fjarðabyggð.

„Þetta var töluvert mikill eldur. Svona pokar eru olía og tjara og því er eldsmaturinn mjög mikill. Sem betur fer gekk vel að slökkva eldinn, ætli við höfum ekki verið um 30 mínútur að slá eldinn niður.“

Þorbergur segir að lítið tjón hafi orðið á öðru en nótapokanum sem brann og kassanum utan um. „Húsin sem hýsa stjórnstöð þvottastöðvarinnar sviðnuðu, það er samt óverulegt.“

Eldsupptök eru ókunn en lögreglan mun rannsaka þau. „Þetta hlýtur að vera eitthvað utanaðkomandi, nótin brennur utan frá, það var engin glóð inni í henni. Hvernig sá neisti hefur komist í nótina veit ég ekki. Hún hefur legið þarna í um ár og það er enginn hiti í henni.“



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.