Þurrka þarf upp tjörnina í Botnum

Tjörnin í Botnum, ofan sunnanverðs Seyðisfjarðar, heyrir fljótt sögunni til vegna varnaraðgerða gegn skriðuföllum. Þær varnir sem þegar eru komnar virðast skipta miklu máli. Munabjörgun af skriðusvæðinu er nú lokið.

Þetta var meðal þess sem kom fram á íbúafundi fyrir Seyðfirðinga í gær. Þar fóru Jón Haukur Steingrímsson, sérfræðingur frá Eflu og Hugrún Hjálmarsdóttir, framkvæmda- og umhverfismálastjóri Múlaþing yfir stöðu við varnargerðir og hreinsunaraðgerðir.

Jón Haukur ræddi um og sýndi teikningar af þeim varnargörðum sem eru að rísa og leiðakerfi vatns á svæðinu.

Hann sagði að gera þyrfti umfangsmikið skurðakerfi frá Nautaklauf inn fyrir ofan götuna Botnahlíð að Dagmálalæk. Eins þyrfti að ná utan um vatn sem er ofan gamla Austurvegar og er líklegt að hluti þess verði leiddur út í Búðará. Þessar framkvæmdir fela það meðal annars í sér að Botnatjörnin mun þurrkast upp.

„Við þurfum að ná vatni út úr kerfinu áður en það byggir upp þrýsting í jarðlögunum. Allt vatnið sem safnast hefur upp á flatanum í Botnum er drifkraftur á bakvið hreyfingar í urðarmassanum þar,“ sagði Jón Haukur.

Vöktun áfram aukin

Hann sagði einnig að eftir páska stæði til að bæta við vöktun í staðnum. Fimm grunnvatnsmælar bætast þá við og verða þeir tíu alls. Þá verða einnig teknar myndir í holum í hlíðinni til að kanna hvort þær hafi afmyndast. Í vor eða sumar verður bætt við speglum til að kanna hreyfingu í sífrera í Strandartindi.

Eins eru framundan frumathuganir á líklegum áhrifum þeirra varna sem byggðar hafa verið upp. Sérstök skýrsla er væntanleg um svæðið við Búðar sem miðað við fyrstu athuganir virðist hægt að verja. Þar hafa þegar risið garðar til bráðabirgða. „Þar virðist hægt að gera eitthvað sem raunverulega hefur árangur.“

Miklar framkvæmdir eru hafnar á Hafnargötu, bæði við Búðará og Slippinn. Þar stendur til að steypa ræsi á tveimur stöðum um miðjan apríl og má þá búast við töfum á umferð um svæðið. Vinna á lögnum á svæðinu er þegar hafin.

Hreinsað þegar snjórinn hopar

Hugrún skýrði frá því að björgun muna í rústum húsa á skriðusvæðinu væri lokið og gengið frá þeim til bráðabirgða.

Hún sagði snjó hafa tafið hreinsunarvinnuna sem annars hefði gengið ágætlega og unnið yrði áfram við að snyrta ýmis svæði eftir því sem snjóa leysir. Við það séu ábendingar íbúa um hvar taka þurfi til hendinni vel þegnar.

Búið er að skoða gatnakerfið bæjarins, sem Hugrún segir sums staðar þurfa verulega á viðhaldi og nefndi þar sérstaklega Austurveginn. Það verður gert í vor eða snemma í sumar. Þá verður byrjað að sá í skriðusárin í apríl.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar