Þörf á öðrum dýralækni sunnan Fagradals

Formaður Búnaðarsambands Austurlands segir of mikið að ætla einum dýralækni að sinna vaktþjónustu fyrir svæðið frá Vopnafirði til Djúpavogs. Þörf sé á öðrum dýralækni sem búi sunnan Fagradals.

Breytingar voru gerðar á svæðaskiptingu dýralækna um áramót í kjölfar þess að dýralæknir á Breiðdalsvík lét af störfum vegna aldurs. Vaktsvæðið frá Vopnafirði til Djúpavogs var sameinað í eitt og er sinnir nú aðeins einn dýralæknir vaktþjónustu í stað tveggja.

Dýralæknarnir sem skipta þeirri þjónustu með sér, samkvæmt samningi við Matvælastofnun, búa á Vopnafirði og Egilsstöðum. Svæðinu sunnan Djúpavogs er sinnt frá Hornafirði.

„Ég skil eiginlega ekki hvernig einn dýralæknir á að sinna öllu þessu svæði. Hann getur fengið útkall á Vopnafjörð og í Berufjörð á svipuðum tíma. Á báðum þessum stöðum eru stór kúabú og fjallvegir á milli sem ekki alltaf eru færir. Það er heldur ekki skroppið frá Hornafirði ef veðrið er vont,“ segir Jóhann Gísli Jóhannsson, formaður Búnaðarsambands Austurlands.

„Manni finnst þetta vafasamt miðað við skyldur um dýravernd sem lögð er á okkur. Okkur ber að sjá til þess að skepnurnar eigi sæmilegt líf og sé bjargað í nauð, til dæmis við burð. Við slíkar aðstæður er langt að bíða í 8-10 tíma eftir þjónustu.“

Það eru ekki bara bændur sem þurfa á bakvaktarþjónustunni að halda. „Þetta hefur líka áhrif á gæludýraeigendur, sumir hundar kosta milljónir auk þess sem fólk tengist gæludýrunum oft sterkt tilfinningalega.“

Hann segir Búnaðarsambandið ekki hafa gert sérstakar athugasemdir við breytinguna um áramótin en það hafi, með stuðningi Bændasamtaka Íslands, vakið athygli á að þörf sé á að efla þjónustu dýralækna á Austurlandi. „Það virðist ekki ná í gegn en við vitum líka að það hefur verið erfitt að fá dýralæknar til starfa á svæðinu.“

Hann segir forgangsmál að fá dýralækni til starfa á svæðinu sunnan Fagradals sem sinnt gæti Fjarðabyggð og Djúpavogssvæðinu. Jóhann Gísli bendir á að aukafjárveitingar hafi fengist til að tryggja vaktþjónustu annars staðar á landinu og vonast til að hægt verði að bregðast við eystra líka.

„Suðursvæðið verður útundan við þessa breytingu og þar búa bæði bændur og gæludýraeigendur. Það má ekki setja dýralækna í þessa stöðu að þurfa að fara út í neyðarbjörgun í vonlausum aðstæðum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar