„Þetta verður löng barátta“

Björgunarsveitarfólk á Seyðisfirði hefur litla hvíld fengið síðan skriðuföll byrjuðu í bænum síðasta þriðjudag. Gríðarlegt tjón varð svo á föstudag þegar stór skriða féll á utanverðan bæinn. Formaður björgunarsveitarinnar Ísólfs er þakklátur fyrir þann stuðnings sem fólk víða að hefur sýnt sveitinni og bæjarbúum.

„Ég er í fríi frá björgunarsveitinni í dag og næ aðeins að líta upp úr þessu, sem er mjög gott. Ég fór í vinnuna í staðinn,“ segir Helgi Haraldsson, formaður björgunarsveitarinnar Ísólfs á Seyðisfirði.

Hann var heima hjá sér á Múlavegi þegar stóra skriðan féll, eftir að hafa verið á vakt um nóttina. „Ég var nýlega vaknaður, rétt stiginn upp úr rúminu þegar þetta drundi yfir. Eftir þetta var ég vel vaknaður.

Ég vissi ekki hvaðan hljóðið kom, þetta gat allt eins verið að koma í hausinn á okkur. Fjörðurinn er þröngur og þetta drundi um allan bæ. Ég kom öllum út heima og niður í fjöldahjálparmiðstöðina en fór sjálfur beint í aðgerðina.“

Í vinnunni, svo á vaktina

Um nóttina hafði skriða hrifið húsið Breiðablik af undirstöðum sínum. „Ég held að tveir félagar mínir hafi séð í lokin á þeirri skriðu, að húsið hafi enn verið á hreyfingu. Við vorum á rúntinum því rigningin hafði aðeins minnkað og við fórum til að skoða stöðuna. Ég tók ekki eftir skriðunni fyrr en þeir hringdu.“

Björgunarsveitir af bæði Austurland- og Norðurlandi hafa veitt aðstoð allra síðustu daga en framan af var það kjarni úr Ísólfi sem stóð vaktina. „Það er lítil hvíld og tekið á því þegar svona er í gangi. Við höfum deilt milli okkar vöktun eins og hægt er. Þetta er vissulega sjálfboðaliðastarf og daginn áður en Breiðablik fór var ég í vinnunni á dælubílnum á kafi í frárennslisbrasi. Eftir vinnudaginn fór ég í björgunarstörfin og svo heim klukkan 8-9 um morguninn.“

Ekki getað skoðað ástandið á eignum sveitarinnar

Sæból, hús björgunarsveitarinnar, er á svæði sem skriðan umlykur. Hluti hennar lenti á nýrri viðbyggingu hússins en henni var lokað í byrjun desember. Helgi segir ekki enn ljóst hvernig ástandið er á húsinu eftir skriðuna.

„Það hefur enginn getað skoðað aðstæður þarna svo ég viti til. Það hefur verið flogið þarna með flygildum og svo fékk ég eina mynd senda sem tekin var þegar farið var á svæðið til að koma fjarskiptum í gang. Það sést að skriðan nær að minnsta kosti inn að nýja húsinu og aðeins inn um dyrnar á því gamla.“

Þá lenti Unimog-bifreið sveitarinnar í útenda flóðsins. „Við höfum sömuleiðis ekki getað skoðað hana nema með flygildi. Hún lítur ekki vel út en maðurinn sem var í henni er heill og það er fyrir mestu. Bíllinn stendur upp úr og er gerður úr sterku járni, það hefur hjálpað til að hann hefur ekki slasast.“

Þakklát fyrir stuðninginn

Áður en stóra skriðan féll var hafin söfnun til að styrkja bæði björgunarsveitina og Rauða krossinn á Seyðisfirði, en sjálfboðaliðar úr báðum félögum hafa staðið vaktina síðustu daga. Margir hafa deilt reikningsnúmerum þeirra á samfélagsmiðlum.

„Ég er ekki gjaldkerinn en sé tölvupóst um bankatilkynningar þannig það er augljóst að eitthvað er að koma inn. Ég reikna með að við segjum frá því sérstaklega síðar hvað safnast hefur. Það er enginn að velta sér upp úr þessu núna, það ganga aðrir hlutir fyrir.

Við viljum bara skila góðum þökkum til fólks fyrir að styðja okkur. Þetta verður löng barátta. Við vitum ekkert í hvað peningarnir munu fara en það er hægt að nota þá í ýmislegt í þessu ferli.“

Til að styrkja Ísólf
Kennitala: 580484-0349
Bankanúmer: 0176-26-5157

Til að styrkja Rauða krossinn á Seyðisfirði
Kennitala: 620780-3329
Rauði krossinn: 0176-26-30

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.