Svona er á Seyðisfirði í dag - Myndir

Mikil eyðilegging blasir við á svæðinu þar sem aurskriða féll á Seyðisfjörð um klukkan þrjú í gær. Nokkur hús hafa alveg þurrkast út og önnur eru stórskemmd.

Umferð um Seyðisfjörð er óheimil en fjölmiðlafólk fékk að fara niður á Seyðisfjörð upp úr klukkan tvö í dag. Eftirlitið er strangt, björgunarsveitafólk stendur vaktina á lokunarpóstum beggja vegna Fjarðarheiði og skráir niður nöfn og kennitölu bæði við komu og brottför af svæðinu.

Fyrst sést í skriðuna þegar komið er niður að Neðri-Staf, sárin í hlíðinni eru nokkuð vel greinanleg þar.

Reynt að tryggja rafmagn

Við rafstöðina voru starfsmenn Rarik að störfum, en nokkru áður en fjölmiðlafólk fékk að fara yfir Fjarðarheiðina fór þar vörubíll með varaaflstöð. Í tilkynningu frá RARIK kemur fram að í dag hafi verið unnið að því að ná yfirsýn yfir skemmdir á bæði rafmagns- og hitaveitubúnaði. Vitað sé um nokkrar skemmdir, til dæmis eina ónýta spennistöð og nokkra götuskápa. Unnið hefur verið að því að koma rafmagni á allt svæðið utan stóru skriðunnar. Heitavatnslaust er utan við Lónsleiru.

Öfugt við gærdaginn var Seyðisfjörður þögull og lygn. Nokkur rigning var fyrri part dags en upp úr klukkan þrjú stytti upp. Bærinn er vel upplýstur með jólaljósum og sumir hafa farið að heiman án þess að slökkva nokkurt ljós.

Hlíðinni vantreyst

Engin umferð er í bænum, enda bönnuð. Fjölmiðlahópurinn fékk aðeins að athafna sig innan girðingar ferjuhafnarinnar. Þar var einnig björgunarsveitarfólk og lögregla að störfum en takmarkaður hópur. Flygildi sveimuðu stöðugt yfir skriðunni. Af atferli viðbragðsaðila má skynja að þeir vantreysta hlíðinni verulega enn.

Í morgun féll ný lítil skriða í lækjarfarveg ofan við gamla pósthúsið. Spýjan kom niður foss sem bæjarbúar horfðu stíft á í gær, hann var vel greinilegur og þá enn, en er það víst alla jafna ekki. Nokkrar drunur fylgdu því. Það gerðist um klukkan sjö og var þá enn myrkvað.

Skriðan greinist í þrennt

Frá ferjubryggjunni sést glöggt hvernig skriðan fer af stað í næsta hjalla ofan við fossinn í Búðará. Þar rifnar frá stykki á um 100 metra löngum kafla, fellur niður hjallann og svo að segja hreinsar hann af jarðvegi. Neðan hans sundrast skriðan í þrjár kvíslar og teygir sig þegar allt er talið, miðað við mælingar Austurfréttar af loftmyndum, yfir um 7 hektara svæði sem er orðið hátt í 300 metrar að lengd að neðanverðu. Með skriðunni hefur borist fram gríðarlegt magn af efni.

Ein kvíslanna fer inn fyrir og eyðilagði þar Framhús og vinnuskúr sem stóð við ána. Í innsta enda skriðunnar stendur stór björgunarsveitarbíll og á honum loga afturljósin. Björgunarsveitarmenn í honum komust naumlega undan.

Húsin á torfunni næst Búðaránni að utanverðu sleppa en skriðan fer sitt hvoru megin við þau. Húsin við Hafnargötu ofanverða frá 24-38a eru farin. Meðal þeirra er Silfurhöllin svonefnda, skrifstofuhúsnæði. 38a er innri endi Tækniminjasafns Austurlands. Ytri endi hússins, Vélsmiðjan, virðist hafa sloppið að mestu.

Stóra rauða skemman sem var neðan við Tækniminjasafnið er áberandi frá ferjusvæðinu, en hún er í henglum og næsta skemma við hlið hennar virðist hafa sópast á haf út. Tjónið verður nánar metið á næstu dögum og vikum. Það eitt er ljóst að það er mikið og umtalsvert hreinsunarstarf eftir. Þegar horft er til baka má heita kraftaverk að enginn hafi farist, hvað þá slasast í skriðunni í gær og það er fyrir mestu.

Sfk Skrida 20201219 0001 Snyrt Web
Sfk Skrida 20201219 0004 Web
Sfk Skrida 20201219 0007 Snyrt Web
Sfk Skrida 20201219 0015 Web
Sfk Skrida 20201219 0021 Snyrt Web
Sfk Skrida 20201219 0026 Snyrt Web
Sfk Skrida 20201219 0028 Web
Sfk Skrida 20201219 0029 Web
Sfk Skrida 20201219 0030 Web
Sfk Skrida 20201219 0031 Web
Sfk Skrida 20201219 0033 Web
Sfk Skrida 20201219 0037 Web
Sfk Skrida 20201219 0040 Web
Sfk Skrida 20201219 0041 Web
Sfk Skrida 20201219 0043 Web
Sfk Skrida 20201219 0044 Web
Sfk Skrida 20201219 0046 Web
Sfk Skrida 20201219 0047 Web
Sfk Skrida 20201219 0049 Web
Sfk Skrida 20201219 0052 Web
Sfk Skrida 20201219 0054 Web
Sfk Skrida 20201219 0057 Web
Sfk Skrida 20201219 0059 Web
Sfk Skrida 20201219 0060 Web
Sfk Skrida 20201219 0062 Web
Sfk Skrida 20201219 0066 Web
Sfk Skrida 20201219 0067 Web
Sfk Skrida 20201219 0068 Web
Sfk Skrida 20201219 0070 Web
Sfk Skrida 20201219 0072 Web
Sfk Skrida 20201219 0073 Web
Sfk Skrida 20201219 0078 Web
Sfk Skrida 20201219 0082 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.