Stór aurflóð ekki óþekkt á Seyðisfirði

Stór aurflóð eru ekki óþekkt fyrirbrigði á Seyðisfirði en þau hafa yfirleitt fallið utar í firðinum en þau sem bæjarbúar glíma við núna.

„Það varð stórt aurflóð árið 1950 við Flísahúsalæk sem kostaði fimm mannslíf og það er mannskæðasta flóðið á seinni tímum,“ segir Þorvaldur Jóhannsson fyrrum bæjarstjóri á Seyðisfirði.

„Það má einnig nefna stórt aurflóð 1975 og annað sem skall á þann 8. ágúst 1989 þegar ég var bæjarstjóri,“ segir Þorvaldur. „Þetta síðarnefnda skall á atvinnusvæðinu við útkant bæjarins og olli gífurlegu eignatjóni en engir mannskaðar urðu í þessum tveimur flóðum.“

Þorvaldur segir að vissulega sé uggur í fólki, einkum ungu fólki sem fluttst hefur til bæjarins. Eldri borgarar muna hinsvegar eftir þeim flóðum sem skullu á seinnipart síðustu aldar.

Fram kemur í máli hans að aurflóð falli sunnan megnin í firðinum en snjóflóð aftur norðan meginn. Það virðist sem flóðin séu að færa sig innar í firðinum og að þéttbýlinu.

Sjálfur býr Þorvaldur í húsi sem er á rýmingarsvæðinu og hann kemst ekki heim til sín í augnablikinu.

„Ég sit hér í golfskálanum og virði fyrir mér náttúruna,“ segir hann. „Við fengum að fara heim undir eftirliti í gærdag til að huga að eigninni en fáum það ekki í dag. Það á að athuga með það rétt fyrir hádegi á morgun hvort við fáum að fara heim og skoða aðstæður. Á meðan erum við á hótelherbergi“

Fram kemur í máli Þorvalds að enn rigni en svo virðist sem aðeins hafi dregið úr úrkomunni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.