Stefna á að hefja vinnslu í byrjun næstu viku

Stefnt er að því að starfsfólk geti mætt aftur til starfa í starfsstöð Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði á mánudag en þar hefur starfsemi legið niðri síðan skriður féllu á bæinn um miðjan desember. Farið verður yfir stöðuna með starfsfólki þar á morgun. Ekkert liggur fyrir um bætur á tjóni sem atvinnurekendur hafa orðið fyrir á Seyðisfirði vegna rekstrarstöðvunar vegna aurflóðanna.


„Við stefnum á að starfsfólk geti mætt til vinnu á mánudag og farið að undirbúa að taka á móti fiski,“ segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.

Togarinn Gullver sér vinnslunni á Seyðisfirði fyrir hráefni. Hann kom inn í morgun til löndunar með 65 tonn af afla, mest ýsu og þorski, og lagðist að Strandarbakka. Þar hvíla vanalega farþegaskip og mun þetta vera í fyrsta sinn sem landað er úr fiskiskipi þar. Hann fer strax út aftur og er væntanlegur úr henni á þriðjudag með afla sem landað verður til vinnslu á Seyðisfirði.

Mannauðsteymi Síldarvinnslunnar mun hitta starfsfólk á Seyðisfirði í litlum hópum til að taka stöðuna á því en hjá fyrirtækinu starfa þar um 50 manns.

Starfsmenn ferjaðir í og úr vinnu

Eftir stóru skriðuna 18. desember hefur verið ófært út að starfssvæði Síldarvinnslunnar en vegurinn er nú að opnast. Gert er ráð fyrir að starfsmenn ferðist saman til og frá vinnu á næstunni en reynt er að takmarka umferð um skriðusvæðið þar sem stórvirkar vinnuvélar eru á stöðugri ferð við hreinsun. Þá er umferð um svæðið stýrt í samráði við sérfræðinga í ofanflóðavörnum.

„Þótt vegurinn opni er hann ekki beinn og breiður þannig það er skynsamlegt að koma upp einhverjum flutningi á fólki. Síðan þurfum við að taka tillit til samkomutakmarka og Covid-faraldursins við að leysa þetta,“ segir Gunnþór.

Ekkert eignatjón en talsvert tap af rekstrarstöðvun

Engin starfsemi var þar þann dag. Rafmagn fór af því í tæpa tvo sólarhringa í kjölfarið. Gunnþór segir að væntanlega hafi tíminn verið það stuttur að birgðir hafi ekki skemmst en það skýrist betur þegar hægt verður að skoða aðstæður.

Ekki er vitað til þess að Síldarvinnslan hafi orðið fyrir neinu eignatjóni en hins vegar fellur á fyrirtækið töluverður kostnaður vegna rekstrarstöðvunarinnar. Það fæst ekki bætt. „Við erum búin að vera með starfsmenn á launum allan þennan tíma en ekki í vinnu. Rekstrarstöðvunartryggingar falla úr gildi við náttúruhamfarir og Náttúruhamfaratrygging bætir þetta ekki,“ útskýrir Gunnþór.

Hann segir þörf á umræðu um þessi mál, meðal annars í ljósi upplýsinga um að á næstunni kunni að verða rýmt oftar vegna skriðuhættu. „Það er mjög er mjög erfitt fyrir svona rekstur að þurfa að búa við auknar rýmingar og þurfa að bera kostnað af því. Ég held að það þurfi að skoða þessi mál á fleiri stöðum þar náttúruvá er yfirvofandi. Við bíðum eftir nýju hættumati og hvað það þýðir fyrir öryggi starfseminnar.“

Nokkur fyrirtæki án húsnæðis

Staða Síldarvinnslunnar og fleiri rekstraraðila á skriðusvæðinu voru til umræðu á fundi bæjarstjórnar Múlaþings í gær. Þar var meðal annars bent á að bæði Tækniminjasafn Austurland og sú starfsemi sem áður var í Silfurhöllinni væri á vergangi.

„Þar voru smáfyrirtæki sem lenda í rekstrarstöðvun að hluta eða öllu leyti. Þeir sem hafa verið þar eru í lausu lofti. Það hefur enginn velt fyrir sér hvort eigi að bæta það,“ sagði Þröstur Jónsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins og eigandi fyrirtækis sem er eitt þeirra sem var með aðstöðu í Silfurhöllinni.

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri, sagði að byrjað væri að velta upp möguleikum á aðstöðu fyrir þessa rekstraraðila. Hann sagði að upplýsinga yrði aflað frá atvinnurekendum á Seyðisfirði um tjón sem þeir hafa orðið fyrir. Ekkert sé þó skilgreint í bótakerfinu um hvernig slíkt tjón sé bætt en verði meðal þeirra mála á sem sveitarfélagið muni taka upp í viðræðum við ríkið á næstunni.

Gullver við Strandarbryggju í dag. Mynd: Síldarvinnslan


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.