Starfsfólk hjúkrunarheimila heldur kjörum og réttindum

Náðst hefur samkomulag um að starfsfólk hjúkrunarheimilanna Hulduhlíðar á Eskifirði og Uppsala á Fáskrúðsfirði verði boðið að halda áfram störfum á sömu kjörum og áður, með óskert réttindi, þegar Heilbrigðisstofnun Austurlands tekur við rekstri þeirra af sveitarfélaginu Fjarðabyggð 1. maí.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti samkomulag sem náðst hefur við heilbrigðisráðuneytið á fundi sínum í dag.

Í tilkynningu frá Fjarðabyggð segir að samkomulagið kveði á um að öllu starfsfólki hjúkrunarheimilanna, utan framkvæmdastjóra, verði boðið að starfa áfram á heimilunum á sömu kjörum og njóta sömu réttinda, þegar HSA tekur við rekstrinum eftir mánuð. Gerðir verða nýir ráðningasamningar sem endurspegla þessa ákvörðun, að höfðu samráði við stéttarfélög starfsmanna.

Samkomulagið verður nánar kynnt starfsfólkinu eftir páska en vonast er til að með því sé allri óvissu um störf og réttindi starfsfólks við yfirfærsluna eytt.

Ráðið fram úr deilu

Ríkið ber ábyrgð á öldrunarmálum en hjúkrunarheimilin voru rekin af sveitarfélaginu samkvæmt þjónustusamningi við hið opinbera. Fjarðabyggð sagði samningum upp síðasta haust þar sem greiðslur ríkisins dugðu ekki fyrir rekstrarkostnaði.

Þrátt fyrir að samningunum væri sagt upp með fyrirvara varð það ekki ljóst fyrr en í byrjun mars að ríkið, í gegnum HSA, myndi taka við rekstrinum. Við sama tilefni var tilkynnt að segja þyrfti upp öllu starfsfólki hjúkrunarheimilanna og yrðu stöðurnar auglýstar í kjölfarið. Af hálfu ríkisins var talið að lög um aðilaskipti giltu ekki og því yrði að fara þessa leið.

Þessu var mótmælt af hálfu sveitarfélagsins sem bæði sá fram á að þurfa að taka á sig skuldbindingar auk þess sem það taldi loforð hafa verið gefin á uppsagnartímanum um að störf og réttindi starfsfólk yrðu varin. Fór Fjarðabyggð því fram á að yfirfærslunni yrði frestað um mánuð til 1. maí meðan greitt yrði úr stöðunni.

Ánægja með samkomulagið

„Fjarðabyggð hefur í viðræðum sínum við ráðuneytið lagt á það megináherslu að tryggja störf og réttindi þess fólks sem starfar á Uppsölum og Hulduhlíð. Það samkomulag sem nú er í höfn tryggir starfsfólki sambærileg réttindi og kveðið er á um í lögunum.

Miklu skiptir að sú mikilvæga þjónusta sem rekin er á hjúkrunarheimilunum sé ekki í óvissu og að hagsmunir íbúanna séu tryggðir. Því er það ánægjuefni að Heilbrigðisstofnun Austurlands skuli taka við rekstri heimilanna en stofnunin hefur mikla reynslu af rekstri hjúkrunarrýma.

Það er ánægjulegt að samkomulagið sé í höfn og að tekist hafi að tryggja störf og réttindi þess góða starfsfólks sem starfar á hjúkrunarheimilum Fjarðabyggðar,“ segir í tilkynningunni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.