Slapp undan skriðunni á náttfötunum

„Ég rétt slapp undan skriðunni á hlaupum á náttfötunum,“ segir Sigríður Guðlaugsdóttir íbúi í húsi sem stendur rétt hjá Búðará þar sem skriðan í dag féll niður.

„Ég var heppin að sleppa en ég heyrði drunurnar á undan og tókst að sleppa út. Og ég náði að grípa hundinn minn með í leiðinni. Húsið mitt stendur þó ennþá en húsið við hliðina fór niður í fjöru og er sennilega ónýtt.“

Sigríður segir að hún sé enn á náttfötunum en hafi fengið inni í nótt á Hallormsstað. „Ég fæ far inn í skóginn. Það eina sem ég tek með mér eru tveir hundar og köttur í tösku,“ segir hún.

Nýjustu fréttir eru að flestir íbúa Seyðisfjarðar hafa yfirgefið bæinn og er hann því mjög eyðilegur í augnablikinu. Nær allir hafa farið á einkabílum eða fengið far með vinum eða kunningjum. Rútur eru komnar og eru til staðar fyrir þá sem á þurfa að halda. Vakt verður í nótt og búið er að lýsa upp hlíðarnar fyrir ofan bæinn þar sem helst er talið að skriður geti fallið.

Margir á Héraði hafa boðist til að hýsa íbúa Seyðisfjarðar. Bæði Hótel Valaskjálf og Hótel Hallormsstaður hafa opnað dyr sínar fyrir Seyðisfirðingum sem og Tehúsið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.