Skýldu sér bakvið Gamla ríkið

Fólk, sem statt var í aðgerðastjórn björgunaraðgerða á Seyðisfirði þegar mikil skriða féll á svæðinu í dag, flúði í skjól bakvið nálægt hús meðan lætin gengu yfir.

„Við vorum að fylgjast með ánni sem er fyrir innan og ofan björgunarsveitarhúsið. Við sáum að fossinn var orðinn mórauður.

Svo hleypur þarna niður, við hlaupum út og skýlum okkur bakvið kjallarann í Gamla ríkinu. Þar biðum við þetta af okkur,“ segir Guðni Sigmundsson, félagi í björgunarsveitinni Ísólfi á Seyðisfirði.

Aðgerðastjórnin hefur síðan á þriðjudag haft aðsetur í Sæbóli, húsi björgunarsveitarinnar. Það var í miðju stóru skriðunnar sem féll rétt fyrir klukkan þrjú í dag og hreif með sér um tíu hús. Segja má að öll hlíðin þar fyrir ofan hafi farið af stað.

„Skriðan fór sitt hvoru megin við björgunarsveitarhúsið. Hún tók fullt af húseignum. Við þurftum að vaða yfir leðjuna og aurinn til að koma okkur á öruggan stað. Það var ekkert bílfært. Bíllinn minn og fleiri eru fastir hinu megin við. Það verður hugsað um þá þegar þetta lagast.

Þegar ég var búinn að koma mér í skjól hringdi ég í konuna og nokkra ættingja til að láta vita að ég væri í lagi. Síðan fór ég heim, skipti um föt og kom mér hingað,“ sagði Guðni, sem var í fjöldahjálparstöðinni í félagsheimilinu Herðubreið þegar Austurfrétt ræddi við hann.

Mynd: Veðurstofa Íslands/Emil Tómasson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.