„Sjáum ekki betur en hlíðin hafi lagst í sínar fyrri skorður“

Sérfræðingar Veðurstofu Íslands telja þol hlíðarinnar ofan byggðarinnar í sunnanverðum Seyðisfirði gagnvart rigningum og leysingum síðustu daga sýna aukinn stöðugleika. Viðmið fyrir rýmingu hafa verið hækkuð í kjölfarið.

„Eftir skriðuföllin var ákveðið að fara varlega við næstu úrkomu og leysingar því það komst los á jarðlög og við sáum sprungur víðar en þar sem skriðurnar féllu.

Því var ákveðið að rýma byggðina næst brekkunni næst þegar von væri á 50 mm úrkomu. Ekkert gerðist og síða hafa komið 2-3 tímabil.

Í kjölfarið var viðmiðið hækkað upp í 80-100 mm. Nú fengum við 100 mm úrkomu á tveimur dögum án þess að vart yrði við nokkra hreyfingu. Við eigum eftir að túlka niðurstöðurnar nánar en ég geri ráð fyrir að við getum tekið annað ámóta skref og hækkað viðmiðið í 150 mm,“ segir Tómas Jóhannesson, fagstjóri á ofanflóðadeild Veðurstofunnar.

Hann segir að viðmiðið fyrir rýmingu sé því að færast aftur í það horf sem það var fyrir skriðuföllin. „Við sjáum ekki betur en hlíðin hafi lagst í sínar fyrri skorður og það þurfi verulega mikið til að hagga því sem los komst á í desember. Við getum því farið nær því ástandi sem var þá án þess að þurfa að óttast skriðuföll.“

Nýju mælitækin reynast vel

Fylgst hefur verið náið með jarðhræringum á Seyðisfirði síðan í desember, en Tómas segir athyglina hafa beinst að bröttum brúnum nærri skriðunum sem féllu þá sem og sprungum sem mynduðust. Bætt hefur verið við mælitækjum sem Tómas segir reynast vel núna. Eins hefur Veðurstofan frekari gögn í höndunum, til dæmis um vatnshæð í borholum ofan byggðarinnar.

„Við sjáum hvernig vatnið skilar sér inn í borholurnar. Nú vitum við að þótt þrýstingurinn í þeim nái ákveðnu marki verða ekki umtalsverðar hreyfingar á jarðlögunum.“

Áfram verður unnið að uppsetningu mælitækja, en þörf er á nokkrum kerfum til að bregðast við mismunandi aðstæðum. Tómas segir mikilvægustu tækin vera komin upp en stefnt sé að því að klára uppsetningu þeirra sem eftir eru áður en snjóa leysir í vor. Úrkomunni um síðustu helgi fylgdu líka hlýindi og þar með leysingar, en afrennsli vegna hita og vinds er meðal þess sem spáð er fyrir hjá Veðurstofunni.

„Við höfum verið að læra á tækin. Það er allt annað að vakta svæðið með þau sem eru komin og gott að þau voru komin áður en það fór að rigna. Við tökum eitt skref í einu þegar svona tímabil koma,“ segir Tómas.

Áfram farið varlega við hreinsunarstarfið

Áfram verður þó farið sérstaklega varlega á svæðinu þar sem stóra skriðan féll en utan hennar hangir enn mikill fleki sem fylgst er náið með. Vinna þar fyrir neðan verður því áfram stöðvuð þegar von er á mikilli úrkomu, eins og um helgina.

„Við eigum ekki von á risaskriðum en þarna eru brattar brúnir sem standa eftir í skriðujaðrinum. Það getur fallið úr þeim við margvíslegar aðstæður í rigningum og leysingum meðan þær eru að jafna sig.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.