Seyðisfjörður rýmdur og neyðarstigi lýst

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir neyðarstigi á Seyðisfirði og ætlunin er að rýma bæinn að fullu, það er flytja alla íbúa á brott. Allir sem staddir eru á Seyðisfirði hafa verið beðnir um að gefa sig fram í fjöldahjálparstöðinni í Herðubreið.

Verið er að skrá alla sem eru á Seyðisfirði í Herðubreið eða í gegnum símanúmerið 1717. Fólk hefur val um að yfirgefa bæinn í eigin bílum. Einnig verður boðið upp á rútuferðir og eru rútur á leiðinni. Öllum sem búa í húsum utan rýmingarsvæða býðst til þess að skjótast heim og taka með sér helstu nauðsynjar.

 

Eins og fram hefur komið féll stór skriða á um tug húsa um klukkan þrjú í dag. Flest þeirra skemmdust og eitt kubbaðist í sundur eins og það var orðað í frétt á austurfrétt.is. Ekki er vitað um nein meiðsli á fólki í þessari skriðu sem féll innan rýmingarsvæðis. 


Allar björgunarsveitir á Austurlandi hafa verið boðaðar til Seyðisfjarðar og lögreglumenn frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sérsveit ríkislögreglustjóra og frá lögreglunni á Norðurlandi eystra hafa einnig verið sendir á staðinn. Þá er varðskipið Þór á leið austur og verður til taks á Seyðarfirði.

Það er mikilvægt að all­ir íbú­ar og aðrir á Seyðis­firði mæti í fé­lags­heim­ilið Herðubreið og gefi sig fram í fjölda­hjálp­ar­stöð eða hringi í síma 1717.

Fréttin verður uppfærð...Skráningu allra íbúa er lokið.

Tekin hefur verið ákvörðun um að enginn fái að fara heim áður en bærinn verður rýmdur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.