Fólk þarf að vera fullvisst um að öruggt sé að snúa heim

Íbúi á Seyðisfirði segir bæjarbúa í áfalli eftir skriðuföll síðustu daga. Hún telur að erfitt verði fyrir marga að snúa heim. Áfallið eigi eftir að koma þegar fólk kom aftur til fjarðarins og sjá eyðilegginguna eigin augum.

„Ég fór í fjöldahjálparmiðstöðina í gær. Það var gott að hitta alla. Ég gat ekki betur heyrt og séð en Seyðfirðingar væru almennt í sjokki. Ég veit að ég er aðeins titrandi og er ekki fullkomlega viss um að ég kæri mig um að fara heim aftur,“ segir Guðrún Katrín Árnadóttir, íbúi á Seyðisfirði.

„Ég er ekki viss um að Seyðisfjörður verði nokkurn tíman Seyðisfjörður aftur. Það þarf að telja fólki trú um að það sé fullkomlega öruggt að snúa heim aftur. Ég held að áfallið komi frekar þá, þegar fólk sér eyðilegginguna. Ég held það geri sér ekki grein fyrir henni enn því enginn hefur séð svæðið í björtu.

Það var komið hálfgert myrkur þegar stóru skriðurnar féllu og myrkur þegar við vorum beðin um að fara. Við fréttum síðan bara af fólkinu sem hafði verið í kringum skriðuna.

Annars bíða allir með stóískri ró. Ég held að fólk ætli að treysta yfirvöldum og svo tekur hver sína ákvörðun fyrir sig.“

Fannst drunurnar vara í kortér

Hún dvelur nú líkt og margir aðrir Seyðfirðingar, þar með svo að segja öll hennar næsta fjölskylda, í sumarbústað á Einarsstöðum á Fljótsdalshéraði. Allajafna býr hún við Múlaveg, sem er fyrir neðan Botnahlíð sem rýmd var eftir skriðurnar á þriðjudag. „Ég hef verið hrædd við Botnana árum saman.“

Guðrún Katrín vinnur í Seyðisfjarðarskóla og þar voru litlu-jólin haldin á föstudag. Hún var nýbúin í vinnunni og hafði farið til systur sinnar sem býr hinu megin í bænum, undir Bjólfi. „Það var óhugur í mér og mig langaði ekki heim.

Síðan byrjuðu þessar rosalegu drunur. Fyrst héldum við að Bjólfurinn væri að koma en svo komumst við að því að þetta væri hinu megin. Þaðan sem við vorum sáum við ekki neitt, það var svo mikið mistur en drunurnar fannst mér standa í 15 mínútur.

Ég hringdi í aðra systur mína sem sagðist hafa séð fólk hlaupa undan skriðunni. Ég hugsaði með mér að fólk hefði slasast og tilkynnti að ég væri farin út. Ég fór beint niður í Herðubreið og bauð fram aðstoð mína.“

Skalf um kvöldið

Guðrún Katrín var meðal þeirra sjálfboðaliða sem íklæddir vesti Rauða krossins leiðbeindu fólki inn í félagsheimilið, þangað sem íbúum var stefnt og héldu utan um fólk meðan það var skráð og skipað að fara upp í Egilsstaði.

„Þegar ég kom voru ekki margir að störfum. Skráning var þó hafin og var vel skipulögð. Síðan kom lögreglan og breytti skipulaginu sem skapaði hálfgert öngþveiti. Ég held að hún hafi einfaldlega verið í sjokki eins og aðrir.

Íbúar voru skiljanlega í sjokki en allir voru boðnir og búnir að gera það sem þeim var sagt að gera. Aðeins einu sinni þurfti ég að fá aðstoð við að koma manni í rútuna sem vildi ekki fara. Ég gerði bara það sem ég gat. Ég var ekki endilega í stakk búin til að aðstoða en það var betra en sitja og velta sér upp úr því sem gerst hafði.

Þegar það fór að róast stend ég á tröppunum við Herðubreið og mér fannst þær ganga í bylgjum undir mér. Ég sagði við konu sem var þar með mér að mér liði eins og ég væri með sjóriðu. Hún svaraði mér að þetta væru dæmigerð einkenni áfallastreitu. Þegar ég kom svo loks upp í bústað skalf ég, var þreytt og dæsti í öðru hverju skrefi.“

Guðrún Katrín fékk leyfi til að fara heim til sín og ná í lyf. „Þegar ég var á leiðinni kom á móti mér mórauður straumur eftir götunni. Ég hljóp inn, reif fram tösku, setti ofan í hana tölvuna og morgunslopp og hljóp svo út.“

Jólaserían í Fjarðarheiðinni

Mesta umferðin var búin þegar hún skilaði vestinu og yfirgaf fjöldahjálparmiðstöðina. Að svo búnu ók hún svo eins og aðrir í halarófu upp í Hérað. „Það var örugglega ljós við ljós yfir heiðina, þótt röðin væri mögulega minni en áður. Maður keyrði eiginlega stjarfur á eftir næsta bíl yfir. Sem betur fer var Fjarðarheiðin fær.

Þegar ég kom að brúnni yfir Eyvindará stoppaði ég og pústaði. Ég leit upp í heiðina og mér fannst það svo súrrealískt að bílaröðin var eins og jólasería að koma niður fjallið. Ég heyrði í gær að Egilsstaðabúar hefðu haft það á orði að þetta væri fallegasta jólasería sem þeir hefðu séð.“

Guðrún Katrín segist taka einn dag í einu eins og aðrir Seyðfirðingar. „Ég á eftir að sjá hvort ég þori heim en ég reikna með að kíkja. Ég á hús sem standa við Lónsleiru. Mér sýnist af myndum að þau séu á þurru. Kannski held ég bara jólin þar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.