Segir unnið að farsælli yfirfærslu en segir ekki hvernig

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir það markmið ráðuneytisins að vel takist til við yfirfærslu reksturs hjúkrunarheimilanna Hulduhlíðar á Eskifirði og Uppsala á Fáskrúðsfirði frá Fjarðabyggð til ríkisins. Ekki fást upplýsingar um hvernig ráðuneytið hyggst tryggja það.

Sveitarfélagið sagði rekstrinum upp í lok september þar sem greiðslur ríkisins hafa ekki dugað fyrir rekstrinum og átti samningur að renna út um næstu mánaðamót. Ríkið tilkynnti loks 3. mars að það myndi taka reksturinn yfir sjálft en auglýsing eftir rekstraraðila í febrúar bar ekki árangur.

Ráðuneytið tilkynnti um leið að það teldi lög um aðilaskipti ekki eiga við, en þau tryggja réttindi starfsfólks við slíkar kringumstæður. Það hefði þýtt að Fjarðabyggð hefði þurft að segja upp öllu starfsfólki hjúkrunarheimilanna og það yrði aðeins endurráðið að undangenginni auglýsingu.

Í kjölfar ákvörðunarinnar var aðilaskiptunum frestað til 1. maí til að ganga frá lausum endum. Í fréttum RÚV í gær var haft eftir að bæjarstjóra Fjarðabyggðar að samkomulag væri í höfn sem tryggði réttindi starfsfólks.

Illa gengur að fá svörin

Austurfrétt hefur frá því um miðja síðustu viku óskað eftir svörum frá ráðherra um stöðu málsins. Óskað var eftir símaviðtali en því hafnað vegna anna ráðherra. Úr varð að sendar voru skriflegar spurningar. Svör við þeim bárust í gær, eða eftir viku, í gegnum aðstoðarmann. Annir hafa verið hjá ráðuneytinu vegna Covid-faraldursins.

Austurfrétt spurði meðal annars hver væru skilaboð ráðherra til þeirra 70 starfsmanna hjúkrunarheimilanna í Fjarðabyggð sem bíða þess hvort þeir haldi vinnu sinni og kjörum. Í svarinu segir að unnið sé að farsælli yfirfærslu þjónustunnar en ekki sé tímabært að greina frá einstökum atriðum yfirfærslunnar að svo stöddu. Spurningu um næstu skref var svarað á sama hátt.

Spurningu um hvers vegna ráðherra telji lög um aðila ekki skipta máli var svarað með vísan í eldri yfirlýsingu sveitarfélagsins. Þar er bent á ákvæði í lögum um aðilaskipti um að þau eigi aðeins við um aðilaskipti fyrirtækja. Frá því geti ráðherra ekki vikið. Eins segir það að þetta hafi átt að vera bæjarfélögunum ljóst þegar þau sögðu samningunum upp.

Sérfræðingar í vinnumarkaðsrétti hafa dregið þessa þröngu lagatúlkun ráðuneytisins í efa. Eins hefur verið bent á að lögin hafi gilt við yfirfærslu öldrunarheimila Akureyrar síðasta vor. Spurningu um það var ekki svarað sérstaklega.

SÍ ræddi við sveitarfélögin

Fleiri sveitarfélög en Fjarðabyggð hafa síðustu mánuði sagt upp samningum um hjúkrunarheimili og hafa verið í samfloti í málinu. Þau hafa gagnrýnt að heilbrigðisráðherra hafi ekki fundað með þeim í ferlinu. Í svarinu kemur fram að fundur hafi verið þann 11. janúar.

Eins spurði Austurfrétt hvers vegna rekstur hjúkrunarheimilanna hefði ekki verið auglýstur fyrr en í febrúar og ákvörðunin loks tilkynnt í byrjun mars. Í svarinu kemur fram að Sjúkratryggingar Íslands, sem sjá um málefni hjúkrunarheimilanna fyrir hönd ráðuneytisins, hefðu átt í viðræðum við sveitarfélögin til áramóta um framtíð þjónustunnar. Reksturinn hafi verið auglýstur þegar ljóst var að sveitarfélögin óskuðu ekki eftir að sjá um þjónustuna.

Í ágúst skipaði ráðherra starfshóp til að greina raunkostnað hjúkrunarheimila og átti sá hópur að skila af sér í nóvember. Í umræðum á Alþingi í byrjun þessa mánaðar sagðist Svandís vera orðin langeyg eftir skýrslu hópsins en kvaðst búast við henni á næstu dögum. Enga tilkynningu er enn að finna á vef ráðuneytisins um þá skýrslu. Eftir henni bíða fleiri sveitarfélög, meðal annars Vopnafjarðarhreppur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.