„Samfélagið hér er að gera kraftaverk“

Íbúar og fyrirtæki á Fljótsdalshéraði og víðar hafa í dag boðið fram aðstoð sína við að hlúa að íbúum Seyðisfjarðar sem þurftu að yfirgefa heimili sín í skyndi í gær. Rauði krossinn heldur utan um aðstoð í fjöldahjálparmiðstöð í grunnskólanum á Egilsstöðum.

„Það hefur gengið mjög vel hjá okkur í dag. Við höfum verið með opið síðan klukkan átta í morgun, vorum með morgun-, hádegis-, og kvöldmat. Mér reiknast til að 300-400 manns hafi komið í húsið á einhverjum tímapunkti,“ segir Margrét Dögg Guðgeirsdóttir Hjarðar, starfsmaður Múlasýsludeildar Rauða krossins.

Fóru eins og þeir stóðu

Ákveðið var að rýma Seyðisfjörð um klukkan fjögur í gær, um klukkutíma eftir að mikil skriða féll úr Botnabrún utan við Búðará. Íbúar fengu fyrst aðeins boð um að þeir skyldu mæta í fjöldahjálparstöðina í félagsheimilinu Herðubreið og þar var þeim sagt fara beinustu leið upp í Hérað. Þeir fengu ekki að fara heim til sín áður. Margir fóru því nánast allslausir frá bænum.

Í dag hefur verið reynt að styðja við Seyðfirðinga, meðal annars með að reyna að finna þeim föt til skiptanna. Verslun Rauða krossins var í því skyni opin fram eftir í dag og á Facebook-síðunni íbúar Fljótsdalshéraðs hafa Héraðsbúar boðið fram föt og fleira sem nýtast kann Seyðfirðingum.

Læknir kom í miðstöðina í dag til að ávísa nauðsynlegum lyfjum og var apótek Lyfju opið á meðan þess þurfti. Þá hafa matvöruverslanir á staðnum tekið til mat og vistir. Fyrirtæki víðar af landinu hafa rétt hjálparhönd. Kjarnafæði á Akureyri sendi kjötvörur austur og í morgun sóttu sjálfboðaliðar Rauða krossins 1000 pakka af flatbrauði frá bakstursfyrirtæki í Reykjavík út á flugvöll. Með þeim var búið að útvega smjör og álegg frá fleiri fyrirtækjum. Þá var Seyðfirðingum boðið frítt í sund á Egilsstöðum og svo mætti áfram telja.

„Margir komu bara eins og þeir stóðu. Við vorum að vísa fólki upp í búð til að finna boli og föt til skiptanna,“ segir Margrét Dögg.

Seyðfirðingar fegnir að sjá hvorn annan

Í fjöldahjálparstöðinni hafa einnig verið fulltrúar úr viðbragðsteymi Rauða krossins með sérhæfingu í sálrænum stuðningi, en liðsstyrkur hefur borist í það teymi frá Akureyri. Þá eru prestar af Austurlandi til taks. „Við tökum púlsinn á fólki og sýnum að við erum til staðar á hvern þann máta sem þarf,“ segir Margrét Dögg.

Hún segir Seyðfirðingum þykja gott að hittast í miðstöðinni. „Við finnum að fólk fær mikinn stuðning hvert af öðru. Gærdagurinn var kaos. Seyðfirðingar gleðjast yfir að sjá hvern annan hér og það er mikil samheldni í þeim hér. Æðruleysið er gegnumgangandi, fólk tekur á málunum saman og tæklar það. Ég skynja þó helst óvissuna, hún er erfið og hrikalegt að geta ekki farið heim til sín að skoða ástandið.“

Útvega húsnæði yfir jólin

Á vegum Rauða krossins er farið að svipast um eftir húsnæði fyrir Seyðfirðinga sem ekki getur dvalið á heimilum sínum um hátíðarnar. Hótel Keflavík bauð þeim þegar í gærkvöldi til sín en Margrét Dögg segir einkum horft eftir íbúðum fyrir fjölskyldur.

„Við vitum að einhver hús eru ónýt og ástand annarra óvíst. Við höfum fengið ábendingar bæði af Austurlandi og víðar og erum að taka saman lista yfir staði þar sem fólk getur verið yfir hátíðarnar. Við höfum líka fengið ábendingar um tómar íbúðir á Egilsstöðum sem við getum innréttað með húsgögnum úr búðinni okkar ef þarf. Þetta er eins og annað leyst stórkostlega í sameiningu.“

Margrét Dögg segir að þeim sem staðið hafa vaktina í fjöldahjálparmiðstöðinni sé efst í huga þakklæti til allra sem stutt hafa starfið þar. „Við erum þakklát öllum þeim sem hafa verið tilbúin til að koma og aðstoða okkur, boði fatnað eða húsnæði sem og fyrirtækja og annarra sem hafa stutt við bakið á okkur.“

Fjöldahjálparmiðstöðin verður opin fram eftir kvöldi en opnar svo á ný klukkan 8:00 í fyrramálið og þá verður boðið upp á morgunmat. Sólarhringsvakt er í hjálparsíma Rauða krossins 1717 fyrir þá sem óska sálræns stuðnings.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.