Rýming gekk vel á Eskifirði

Ríflega 160 manns þurftu undir kvöldmat að rýma hús sín á Eskifirði vegna skriðuhættu. Rýmingin gekk vel og er búið að finna öllum húsaskjól.

Það var stuttu fyrir klukkan sex í kvöld sem ákveðið var að rýma hús við Hátún, Lambeyrarbraut, Helgafell, Hólsveg og Strandgötu frá Lambeyrará og út fyrir ystu húsin í Hátúni.

Bæði grunnskólinn og félagsheimilið Valhöll eru á því svæði þannig ekki var hægt að nota þau sem fjöldahjálparmiðstöðvar. Var hún í staðinn sett upp í Kirkju- og menningarmiðstöðinni. Að sögn Jóns Björns Hákonarsonar, bæjarstjóra Fjarðabyggðar höfðu 165 manns gert vart við sig þar.

Lögregla og slökkvilið luku við að fara aðra umferð til að tryggja svæðið um klukkan 20:30 í kvöld. Jón Björn segir rýminguna hafa gengið mjög vel og búið er að koma öllum í húsaskjól fyrir nóttina. Flestir fóru til ættingja og vina innanbæjar en eins leitaði fólk í nágrannabæi. Heimavist Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað var gerð tilbúin en ekki hefur þurft að nota hana.

Lögreglustöðin á Eskifirði stendur neðan við Strandgötu. Þar hefur aðgerðastjórn enn aðsetur en stöðin er talin utan hættulínu.

Búið er að loka svæðinu og stendur björgunarsveitin þar vakt til að tryggja að enginn sé á ferli. Búið er að setja upp ljósabúnað til að geta fylgst með jarðhræringum en að öðru leyti verður staðan tekin í fyrramálið.

Margar litlar skriður

Jón Björn segir að þegar birti í morgun hafi komið í ljós um tugur lítilla aurskriða við Eskifjörð. Þær hafi almennt verið hátt í fjallinu og litlar. Stór skriða féll hins vegar milli bæjanna Símonartúns og Engjabakka utar í firðinum og fór yfir veg.

Að sögn Jóns Björns hefur rignt töluvert á svæðinu í dag en stytt upp með kvöldinu sem dragi úr líkum á skriðuföllum. Þótt mikið hafi rignt undanfarna viku hafi henni slotað einhverja stund hvern sólarhring.

Jón Björn segir hug íbúa í Fjarðabyggð annars hjá nágrönnum þeirra á Seyðisfirði þar sem tugur húsa er talinn hafa eyðilagst í skriðu sem féll í dag og varð til þess að ákveðið var að rýma bæinn að fullu.

„Hugur okkar er hjá þeim. Hér eru allir boðnir og búnir að aðstoða nágranna okkar og ég hef verið í sambandi við bæjarstjóra Múlaþings um það.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.