Reynt að lágmarka það tjón sem þegar er orðið

Vinnuvélar eru að störfum í jöðrum skriðunnar sem féll í nótt og hreif húsið að Austurvegi 38 á Seyðisfirði með sér. Ekki er talin hætta á olíumengun þótt skriðan umlyki bensínstöð Orkunnar.

„Staðan er óbreytt. Það sem er í gangi nú er til að lágmarka tjón sem þegar er orðið. Það er unnið í jaðri skriðunnar og reynt að veita vatni frá húsum.

Þetta verður verkefni dagsins. Miðað við veðurspá þá verður veðrið ekki betra en það er orðið núna. Staðan er metin stanslaust en það hefur ekki verið talið ráðlegt að hleypa fólki inn á rýmd svæði.“

Þetta segir Halti Bergmann Axelsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi sem situr í vettvangsstjórn á Seyðisfirði.

Tvær skriður féllu í nótt, sú fyrri um klukkan eitt en sú seinni um klukkan þrjú. Hún hreif með sér húsið að Austurvegi 38, Breiðablik, bar það 50 metra og snéri því 180 gráður uns það staðnæmdist við bensínstöð Orkunnar. Húsið er talið ónýtt.

Verktakar hafa í morgun unnið að því að hreinsa götuna sem liggur fyrir neðan bensínstöðina til að hægt verði að komast betur að svæðinu þegar veðrinu slotar. Þeir mokað sig inn eftir og voru eftir hádegi komnir inn fyrir Breiðablik.

Þá er slökkviliðið að störfum við að dæla vatni úr kjöllurum og tryggja að það vari aðrar leiðir.

Vegna skriðunnar er eina bensínstöð Seyðisfjarðar lokuð enda umlukin. Dælurnar eru á sínum stað og segir Hjalti ekki áhyggjur af olíumengun. Búið er að upplýsa rekstraraðila um stöðuna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.