Reikna með að fækki í einangrun á morgun

Fimm manns eru í einangrun á Austurlandi þessa stundina vegna Covid-19 smits sem greindist hjá þeim við komuna til landsins. Smit eins er þó gamalt og verður hann væntanlega frjáls ferða sinna strax á morgun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands. Mennirnir voru hluti af 25 manna hópi sem kom með Norrænu til Seyðisfjarðar á þriðjudag en þeir voru að koma hingað til lands til vinnu.

Tveir þeirra greindust með smit við komuna um borð í ferjuna í Hirtshals en hinir þrír við komuna til Seyðisfjarðar. Í var staðfest að smit annars þeirra sem fyrst greindist væri gamalt og hann því hvorki veikur né smitandi. Hann er frjáls ferða sinna og er því búist við að fækki um einn í hóp einangraðra á Austurlandi þegar nýjar tölur verða birtar í morgun.

Hinir eru í einangrun og ekki talin hætta á að smit berist frá þeim út í samfélagið.

Tíu skipverjar flutningaskipsins Taurus Confidence eru með Covid-19 veiruna en skipið liggur í Mjóeyrarhöfn. Ítarlega hefur verið fylgst með líðan mannanna um borð af starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Austurlands og göngudeildar Landspítala. Ástand þeirra er stöðug þannig að engan hefur þurft að flytja frá borði enn.

Alls eru nítján í áhöfn skipsins og eru hinir níu í sóttkví. Þeir hafa verið skimaðir tvisvar, síðast á mánudag og fannst ekkert smit. Þeir verða skimaðir að nýju á mánudag. Enginn þeirra sýnir einkenni veikinda.

Aðgerðastjórn vekur athygli á að sóttvarnir hafi verið hertar í kjölfar fjölda nýrra smita á landinu. Staðan sýni glöggt að fara verði varlega, ekki síst í aðdraganda páska. Því sé mikilvægt að viðhalda smitvörnum svo sem tveggja metra reglu, grímunotkun, handþvotti og sprittnotkun.

„Förum frísk inn í helgina, dymbilvikuna og páskana. Með samstilltu átaki komum við jafnfrísk til baka.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.