Opnað fyrir umsóknir í Hvatasjóð Seyðisfjarðar

Í gær var opnað fyrir umsóknir í Hvatasjóð Seyðisfjarðar. Sjóðnum er ætlað að styðja við uppbyggingu atvinnulífs á staðnum eftir aurskriðurnar í desember.

Sjóðurinn er eitt þeirra úrræða sem í boði eru í gegnum sérstakt átak ríkisstjórnarinnar, sem veitir 250 milljónir á næstu þremur árum til atvinnuuppbyggingar á Seyðisfirði. Opnað var fyrir umsóknir í gær og er frestur til að skila inn umsóknum til 14. apríl.

Forgang í sjóðinn eiga þeir atvinnurekendur sem urðu fyrir tjóni í hamförunum. Sjóðnum er þó einnig ætlað að stuðla að nýsköpunum með áherslu á sjálfbærni, bætta nýtingu, notkun staðbundinna hráefna og sýnilega svæðisins.

Sjóðurinn er ætlaður Seyðfirðingum og þeim sem hafa sterk tengsl við svæðið. Nánari upplýsingar um hann og umsóknareyðublað má nálgast á vef Austurbrúar.

Það var Urður Gunnarsdóttir, nýráðinn verkefnastjóri hjá Austurbrú, sem kynnti sjóðinn en hún mun halda utan um verkefnið fyrir hönd stofnunarinnar. Þá hefur verið mynduð sérstök verkefnisstjórn sem í sitja fulltrúar frá Múlaþingi, heimastjórn Seyðisfjarðar og Austurbrú.

Fleiri verkefni eru komin af stað á vegum átaksins. Þannig stendur atvinnurekendum á Seyðisfirði til boða ráðgjöf til að bregðast við vanda í kjölfar hamfaranna og skjóta stoðum undir reksturinn til framtíðar. Nauðsynleg ráðgjöf er metin í hvert skipti og getur verið lögfræðileg, rekstrarleg eða viðskiptaleg. Þá hefur trygginga- og tjónamálum verið fylgt eftir.

Eins er til skoðunar atvinnuhúsnæði til framtíðar og náms- og virkniúrræði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.