Öll leitarskipin finna loðnu og taka sýni

Öll skipin sem eru í loðnuleit norður af landinu hafa fundið loðnu og tekið sýni. Rannsóknarskipið Árni Friðriksson á í vandræðum með leit vegna hafís. Gott veður er á leitarsvæðinu.

Guðmundur Jóhann Óskarsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknarstofnun, segir að hafísinn hafi rekið nær landinu en menn gerðu sér grein fyrir í upphafi leiðangursins.

„Af þeim sökum hefur rannsóknarskipið ekki komist á sína leitarslóð. Hefur skipið í staðinn fylgt hafísröndinni í vesturátt,“ segir Guðmundur Jóhann.

Geir Zoëga skipstjóri Polar Amarok segir að þeir hafi tekið sýni í morgun og vissulega sé loðnu að finna á þessum slóðum. „Það er of snemmt að segja til um hve mikið sé af loðnu en það sem ég hef heyrt frá hinum leitarskipunum lofar góðu,“ segir Geir. „Við erum hinsvegar í útkantinum á leitarsvæðinu í augnablikinu.“

Fram kemur hjá Geir að veður til leitar sé með besta móti í dag. „Þetta eru alveg kjöraðstæður í augnablikinu hvað leit varðar,“ segir Geir. Útlit er fyrir að veðrið verði gott áfram a.m.k. fram á föstudag. „Það væri gott ef það gengi eftir því þá er leitinni að ljúka,“ bætir Geir við.

Sem fyrr segir hefur rannsóknarskipið Árni Friðriksson átt í vandræðum vegna hafís og var meðfylgjandi mynd tekin um borð í morgun. Þá var skipið statt í kantinum við Barðagrunn. Myndin er tekin af Sigurði Jónssyni.

Í tilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun segir m.a. að áætlað er að skipin nái að fara yfir allt leitarsvæðið í þessari viku. Hafís sé nálægt landi á Grænlandssundi og ljóst að hann muni hamla mælingum þar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.