Norðmenn að klára loðnukvóta sinn

Í morgun höfðu norsk loðnuveiðiskip veitt samtals tæplega 35 þúsund tonn af tæplega 42 þúsund tonna heildarveiðiheimildum sínum í loðnu.

Þetta kemur fram á Facebook síðu Landhelgisgæslunnar. Þar segir að Landhelgisgæslan og eftirlitsmenn Fiskistofu hafa að undanförnu sinnt víðtæku eftirliti á loðnumiðum með varðskipunum Tý og Þór. Einnig hefur þyrlusveit Gæslunnar sinnt eftirliti úr lofti.

Þá hefur stjórnstöð Landhelgisgæslunnar haft heildarsýn yfir veiðarnar, verið í reglulegu sambandi við skipin, móttekið frá þeim tilkynningar um afla og leiðbeint um ýmis atriði.

Á Facebook segir að í morgun voru 6 norsk loðnuskip á veiðum auk eins skips frá Færeyjum. Þá voru tvö erlend skip á leið á miðin. Landhelgisgæslan hefur það hlutverk að fara um borð í erlend loðnuveiðiskip sem eru á leið frá landinu og hyggjast landa aflanum erlendis. Í slíkum tilvikum kannar Landhelgisgæslan afla þeirra og ber hann saman við aflaskeyti skipanna sem send eru til sameiginlegrar eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu til að kanna hvort misræmi sé þar á milli.

Í gær fór áhöfnin á Þór um borð í þrjú norsk loðnuveiðiskip ásamt eftirlitsmönnum Fiskistofu. Þar reyndist allt vera samkvæmt bókinni.

Einnig kemur fram að færeysk og grænlensk veiðiskip hafa ekki hafið veiðar að neinu ráði enda eru ekki sömu tímatakmarkanir á þeirra veiðum eins og gilda um veiðar norskra veiðiskipa.

Mynd: Facebook

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.