Nokkuð stórt snjóflóð úr Sörlagili

Nokkuð stórt snjóflóð féll úr Sörlagili, rétt við munna Norðfjarðarganga í Fannardal, eftir klukkan níu í morgun. Krapaflóð hrifsaði með sér heyrúllur við bæinn Hjarðarhlíð innst í Skriðdal í nótt.

Samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands var flóðið úr Sörlagili um þrír metrar á þykkt. Snjóflóð eru þekkt af svæðinu og því eru varnargarðar ofan við veginn frá göngunum. Flóðið stoppaði nokkru fyrir ofan varnirnar.

Flóðið er skráð 3,5 að stærð á snjóflóðamælikvarðann, en flóð frá 3 og yfir eru talin nógu kröftug til að valda skemmdum á mannvirkjum. Flóðið féll eftir klukkan níu í morgun sem þykir sérstakt þar sem þá hafði dregið verulega úr úrkomunni á Austfjörðum.

Í yfirliti Veðurstofunnar kemur fram að vitað sé um snjóflóð í Fagradal, Eskifirði, Norðfirði, Seyðisfirði, Fljótsdal og Vopnafirði í gær og í dag. Þá hafa fallið krapaflóð í Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði, Seyðisfirði og Skriðdal.

Innan bæinn Hjarðarhlíð, innst í Skriðdal, er vitað um að minnsta kosti fjögur krapaflóð í lækjarfarvegum. Eitt þeirra var nokkuð öflugt og færði til heyrúllur sem það náði í.

Enn eru að berast tilkynningar um ofanflóð á Austfjörðum. Eftir hádegið var tilkynnt um fimm krapaflóð í utanverðum Reyðarfirði, milli Helgustaða og Litlu-Breiðuvíkur.

Aurskriða féll í Borgarfirði eystra við Landsenda í nótt og grjót hrundi úr Njarðvíkurskriðum. Austan Hafnar í Hornafirði féll nokkuð stór aurskriða á rafmagnsstæðu og tók í sundur línuna sem tengist við Teigarhorn í Berufirði.

Frá skriðunni við Landsenda í Borgarfirði. Mynd: Eyþór Stefánsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.