„Munum vinna með sveitarfélaginu og bæjarbúum að þeim stóru verkefnum sem framundan eru“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segist hafa farið frá Seyðisfirði að lokinni heimsókn þangað í gær með góða tilfinningu um að Seyðfirðingar séu á fullri ferð og ætli að halda áfram. Hún segir að íslenska ríkið muni standa við bakið á bæjarbúum á þeirri vegferð.

„Ef þið hefðuð talað við mig þegar ég var nýlent þá hefði ég sagt ég væri í áfalli því það var svo sláandi að sjá þetta.

Eftir að hafa sest niður með fólkinu og talað við það upplifir maður bæði mikið æðruleysi og einbeittan vilja til að horfa til framtíðar. Það ríkir bjartsýni þótt auðvitað séu allir slegnir. Fólk er þakklát fyrir að ekki varð manntjón.

Því geng ég út úr þessari ferð með þá góðu tilfinningu að Seyðfirðingar séu á fullri ferð og halda áfram,“ sagði forsætisráðherra að lokinni verð hennar og þriggja annarra ráðherra austur á Seyðisfjörð í gær þar sem skoðuð voru ummerki eftir aurskriðurnar sem féllu á bæinn í síðustu viku.

„Ég notaði tækifærið til að fara vel yfir stöðuna, hreinsunarstarfið og rannsóknarstarf, sem þegar er komið af stað og fleira. Það er líka ljóst að fólk vill fara vel yfir hættumat og framtíð þess en það er einbeittur vilji til að byggja upp því fólki þykir svo vænt um sitt samfélag.“

Stór verkefni blasa við

Katrín segir að íslenska ríkið sé tilbúið að standa með Seyðfirðingum í þeim verkefnum sem framundan eru, hvort sem það eru bætur á tjóni eða varnir byggðarinnar.

„Fulltrúar Náttúruhamfaratryggingar Íslands voru með okkur í dag en síðan er verkefnið að byggja upp varnir og gera hættumat. Við skoðum hvort hægt sé að flýta uppbyggingu varnarmannvirkja, þessi ríkisstjórn fór í það eftir snjóflóðin fyrir vestan í byrjun árs og umhverfisáðherra kemur hingað snemma á nýju ári. Síðan þarf að huga að hvað hægt er að gera fyrir þessar menningarminjar.

Það eru stór verkefni sem blasa við og við munum vinna með sveitarfélaginu og bæjarbúum að þeim.“

Ítrekar mikilvægi gangna

Gagnrýni hefur þó borist á að ekki hafi verið gengið nógu fljótt í uppbyggingu varnarmannvirkja, bæði gegn snjóflóðum sem öðrum ofanflóðum á fleiri stöðum en Seyðisfirði.

„Ríkisstjórnin greip til þess að flýta uppbyggingu snjóflóðavarna sem hefði átt að vera lengra komin. Það má deila um hversu hratt eða hægt hlutirnir eiga að ganga en þessi skriðuföll voru trúlega stærri en fyrirsjáanlegt var.

Við þurfum að horfa sérstaklega á skriðuföll og það er að gerast með auknum mælingum. Fólk getur ýmislegt en það vill vera öruggt og við þurfum að skoða hvernig við getum tryggt öryggi fólksins.“

Annað málefni sem brann á mörgum í dag voru framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng, en það var lán í óláni að vel fært var fyrir Fjarðarheiðina þegar ákveðið var að rýma bæinn algjörlega eftir skriðuföllin á föstudag.

„Það hefur verið mikið rætt um það lán í dag að heiðin var opin. Fjarðarheiðargöng eru komin á dagskrá ríkisstjórnarinnar og þetta atvik ítrekar mikilvægi þeirra. Það er enginn bilbugur á því verkefni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.