Múlaþing dregur sig út úr Skólaskrifstofu Austurlands

Sveitarfélagið Múlaþing hefur samþykkt að draga sig úr úr samstarfi um Skólaskrifstofu Austurlands. Það þýðir að skrifstofan hverfur af sjónarsviðinu í núverandi mynd. Unnið er að samkomulagi um með hvaða hætti þetta verði og hvenær.

„Það er verið að vinna að samkomulagi um hvernig staðið verði að þessu og ég á von á að það líti dagsins ljós fljótlega.

Þetta þýðir að Skólaskrifstofan verður ekki til á því formi sem hún er núna, að minnsta kosti ekki hvað Múlaþing varðar,“ segir Gauti Jóhannesson, forseti sveitarstjórnar Múlaþings og núverandi stjórnarformaður Skólaskrifstofunnar.

Ekki liggur fyrir hvenær breytingarnar ganga í gegn, eða hvernig hin sveitarfélögin munu standa að þjónustunni. Það kemur væntanlega frekar fram í samkomulaginu.

Afurð sameiningarviðræðna

Byggðaráð Múlaþings samþykkti á fundi í lok janúar að fela sveitarstjóra að vinna samkomulag um að samstarfi um sérfræðiþjónustu skóla verði slitið. Sveitarfélögin frá Austurlandi hafa nánast síðan sveitarfélögin tóku við rekstri grunnskóla fyrir um aldarfjórðungi staðið saman að Skólaskrifstofunni sem sinnt hefur ýmissi stoðþjónustu fyrir skóla sveitarfélaganna. Að byggðasamlaginu eiga í dag aðild Fjarðabyggð, Fljótsdalshreppur og Vopnafjarðarhreppur.

Ákvörðunin á sér töluverðan aðdraganda. Stóru sveitarfélögin, Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð, höfðu bæði sýnt áhuga á að sjá sjálf um stoðþjónustu fyrir fræðslustofnanir sínar. Í aðdraganda sameiningar Fljótsdalshéraðs við Seyðisfjarðarkaupstað, Djúpavogshrepp og Borgarfjarðarhrepp voru myndaðir starfshópar um tiltekin mál sem þurfti að kanna fyrir sameiningu.

Einn slíkur fjallaði um fræðslumál og voru tillögur hans meðal annars í þá átt að sveitarfélagið ætti að sjá sjálft um sérfræðiþjónustuna. Byggir það meðal annars á samstarfi félagsþjónustu- og fræðslusviðs, sem á sér enn frekari stoð í Austurlandslíkaninu, þverfaglegri aðferðafræði við snemmtæka íhlutun.

Fjölskylduráð Múlaþings skipaði í byrjun desember starfshóp til að fara nánar yfir þessar tillögur og skilaði sá af sér um miðjan janúar. Eftir niðurstöðum hans lagði fjölskylduráðið til að samstarfinu yrði slitið.

Í bókun ráðsins segir að mikilvægt sé að sá mannauður sem fyrir sé tapist ekki við breytingarnar. Því sé nauðsynlegt að hafa samráð við starfsfólk Skólaskrifstofunnar. Þá leggur ráðið einnig áherslu á að markvisst samráð verð haft við stjórnendur bæði leik- og grunnskóla sveitarfélagsins um framtíðarskipan skólaþjónustu til að tryggja að hún sinni sem best víðu hlutverki sé henni sé ætlað, bæði eftir lögum og þörfum.

Eiga eftir að móta eigin þjónustu nákvæmlega

Gauti segir öll aðildarsveitarfélögin vera sammála um að halda vel utan um starfsfólk Skólaskrifstofunnar og tryggja samráð við það. Með þessari ákvörðun sé ekki á nokkurn hátt verið að kasta rýrð á störf þess. „Þótt talið sé að hægt sé að bæta hlutina þýðir það ekki að það sem fyrir er sé slæmt,“ segir hann.

Ekki hefur verið gengið frá því hvernig nákvæmlega Múlaþing hyggst sinna þeirri þjónustu sem Skólaskrifstofan hefur sinnt. „Okkar hugur stendur til að bjóða eins góða þjónustu og mögulegt er og við erum að vinna í því.

Það verður ekki ítrekað nóg að þetta er viðkvæm og mikilvæg þjónusta. En þetta er engin bráðaaðgerð heldur hefur hún átt sér langan aðdraganda.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar