Mikilvægt að ná eins miklu vatni og hægt er úr Botnunum

Varnir gegn mögulegri skriðuhættu undir botnum byggir á að hægt sé að minnka vatnið á svæðinu. Slíkt drenkerfi hefði mögulega dregið úr stóru skriðunni sem féll þar 18. desember en hæpið er að nokkurt varnarkerfi hefði ráðið við hana að fullu.

Þetta kom fram í máli Jóns Hauks Steingrímssonar, jarðverkfræðings hjá Eflu, á íbúafundi í síðustu viku. Jón Haukur fór þar yfir mögulegar varnir byggðarinnar til framtíðar.

Hann sagði að Seyðisfjörður byggi við margvíslega hættu. Auk jarðvegsskriða, eins og féllu fyrir jól, stafaði byggðinni hætta af vatnsflóðum, krapaflóðum, snjóflóðum og grjóthrauni auk þess sem fylgjast þyrfti með sífrera efst í Strandartindi. Varnir þurfa því að taka mið af fjölbreyttri hættu og afar mismunandi aðstæðum sem geta skapað hana.

Setlög í Botnunum hreyfast að bænum

Hvað jarðvegsskriðurnar varðar er mesta hreyfingin í Botnunum. Þeir eru í raun myndaðir af 20-70 metra þykkum setlögum, blöndu jökulsets og skriðusets, sem hvíla í hvilft ofan byggðarinnar í sunnanverðum firðinum.

„Allur þessi massi hnígur hægt og rólega í áttina að bænum. Fyrr eða síðar myndast ákveðinn óstöðugleiki í brúnunum sem til þessa hefur leitað jafnvægis með grynnri skriðum,“ sagði Jón Haukur.

„Hinn megin drifkrafturinn er úrkoma og vatnsþrýstingur. Þegar þetta fer allt saman, eins og gerðist núna fyrir jól, fara þessir atburðir í gang. Þetta er ekki eitthvað sem eigum vont á að raski við sér á þurrum sumardegi.“

Þrjár tegundir skriða algengastar og viðráðanlegastar

Hann skipti jarðvegsskriðunum við Seyðisfjörð í fjóra flokka. Í fyrsta lagi eru það grunnar yfirborðsskriður þar sem flekar renni af stað í hlíðum. Einhverjir slíkir flekar fóru af stað núna en ekki endilega langt. Gamlar sprungur eftir slíkar hreyfingar sjást víða í hlíðinni.

Í öðru lagi eru það jarðvegsbrot þar sem lindir streyma um jarðvegsmassann. Þær byggja smá saman upp þrýsting og sprengja sig svo fram. Þannig var fyrsta skriðan í Nautaklafunni. „Þetta eru eins og augu sem opna sig, svo kemur massinn fljúgandi niður með miklu vatni,“ útskýrði Jón Haukur.

Þriðja gerðin, sú algengasta, er hrun úr lækjarköntum sem tímabundið stífla farvegina. Vatnið kemur síðan fram af miklum krafti þegar það fer af stað.

Drenkerfi í Botnabrún

Jón Haukur sagði að til að fást við þessar þrjár tegundir þyrfti „umfangsmikið kerfi af þróm“ eins og búið var að gera í farvegi Búðarár. Sú þró fylltist í stóru skriðunni svo flæddi yfir en Jón Haukur sagði þróna hafa skilað ótrúlega miklu miðað við hve lítil þróin var samanborið við skriðuna.

Að auki þarf umfangsmikið kerfi skurða til að beina vatni úr Botnunum, einkum brún þeirra, og byggja út frá því veitukerfi sem komu vatninu hratt og örugglega út í sjó. Samhliða fyrstu áföngunum í slíku kerfi þarf að auka vöktun á svæðinu, meðal annars með borholum, til að sýna fram á að aðgerðirnar skili árangri.

Hvað stóru skriðuna snertir þá er fellur hún undir fjórðu gerðina, skriður á „forsögulegum skala“ sem séu miklu stærri og öðruvísi en hinar. Hann sagði hæpið að nokkurt varnargarðakerfi hefði ráðið fyllilega við hana en mögulega getað dregið úr henni.

Jón Haukur sagði mikilvægt að bæta hratt og vel við vöktunarkerfi ofan Seyðisfjarðar samhliða því að ráðast í gerðir varna. Þær feli þó í sér mikið inngrip þar sem meta þurfi umhverfisáhrif og breyta skipulagi sem tæki allt sinn tíma.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.