„Mikilvægt að eiga samtalið við fólkið“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, segir það hafa verið mikilvægt að koma austur á Seyðisfjörð og hitta heimafólk augliti til auglitis. Frásagnir þess séu mikilvægt veganesti fyrir þá vinnu sem framundan er við að tryggja öryggi í bænum til frambúðar.

„Dagurinn í dag var okkur mjög mikilvægur, bæði að geta talað við heimamenn en líka að sjá þetta með eigin augum,“ segir Áslaug Arna.

Hún var ein fjögurra ráðherra úr ríkisstjórn Íslands sem kom austur á Seyðisfjörð í dag til að skoða ummerki eftir mikil skriðuföll í síðustu viku. „Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með samstöðu fólksins á svæðinu, bæði Seyðfirðingum og hér í kring.

Síðan hefur verið gott að sjá hve vel samvinnan í viðbrögðunum hefur gengið, hvað allir hlekkir keðjunnar hafa virkað. Auðvitað er þakkað fyrir að ekkert manntjón varð, ótrúlegustu hlutir gerðu það að verkum.

Nú þarf að horfa fram á við. Það þarf að vera góð upplýsingagjöf, greiningarvinna og finna út hvar fólk getur verið um jólin auk þess að halda áfram hreinsun. Síðan eru það stóru verkefnin, uppbyggingin, hættumat, varnir og samgöngumál.“

Þegar þú segir samgöngumál – þá meinarðu jarðgöng?
„Auðvitað, já“

En hvernig verður öryggið tryggt til frambúðar? Hver verður aðkoma þíns ráðuneytis?
„Almannavarnir eru samstöðuhlekkur allra þessara viðbragðsaðila og í samtali við Veðurstofuna tryggja þær stöðuna á svæðinu þannig að fólki geti liðið vel með það. Stóra verkefnið framundan hjá Seyðfirðingum verður að meta framhaldið.

Það sem snýr að okkur er áframhaldandi viðbragð og svo hreinsunarstarf og uppbygging. Þessi vinna er í samráðshóp, þvert á ráðuneyti, enda koma næstu skref mörgum við. Þessi ferð gaf okkur mikið nesti í þá vinnu.“

Hvernig fannst þér hljóðið í Seyðfirðingum?
„Það var ótrúlega gott. Auðvitað eru mörg brotin hjörtu en það er líka mikið þakklæti fyrir að ekki fór verr og fólk vill horfa fram á við. Auðvitað eru margir hræddir, það er eðlilegt og við eigum erfitt með að setja sig í þau spor að náttúruöflin ógni lífi manns. En við viljum tryggja það öryggi sem best.

Ég er full aðdáunar yfir viðbrögðum fólks eftir daginn. Við höfum átt samtöl við fólk sem missti heimili sín eða getur ekki farið heim yfir hátíðarnar. Það er erfitt að setja sig í þau spor en þess vegna er mikilvægt að eiga samtalið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.