Meta hvort rýma þarf á Seyðisfirði um helgina

Metið verður um helgina hvort grípa þurfi til rýmingar að nýju á Seyðisfirði. Veðurspá gerir ráð fyrir hlýnandi veðri og talsverðri rigningu á Austfjörðum á sunnudag.

Þetta kemur fram á vefsíðu Lögreglunnar á Austurlandi. Þar segir að spáð er hlýnandi veðri um helgina með talsverðri rigningu, einkum sunnan- og suðaustanlands, en einnig á Austfjörðum á sunnudag.

„Á Austfjörðum er töluverður snjór til fjalla sem mun blotna og fylgjast þarf með hættu á bæði votum snjóflóðum og skriðuföllum. Af þessum sökum verður aukin ofanflóðavöktun um helgina og fylgst með því hvernig aðstæður þróast á Seyðisfirði. Metið verður um helgina hvort grípa þurfi til rýmingar eða annarra ráðstafana.“ segir á vefsíðunni.

„Tilkynning vegna þessa verður á þessum vettvangi send út á morgun milli klukkan 13 og 16,“ segir á vefsíðunni.

Þar kemur fram að unnið sé við varnargarða á svæðinu ofan við Tækniminjasafnið og Slippinn.  Þar er búið að móta garðana og vatnsrásir meðfram þeim, einnig er hafin vinna við að undirbúa nýja veituþverun á Hafnargötu og byrjað á að létta af efni ofan við varnargarðana þar sem setþró verður staðsett. Við Búðará er vinnu við varnargarða lokið en nú er unnið við að hreinsa efni innan úr setþrónni, þar eru tvær gröfur og nokkrir vörubílar að störfum.

Þá er unnið að endurskoðun hættumats fyrir Múlasvæðið næst utan við Búðará, svæði næst utan Stöðvarlækjar og efsta hluta byggðarinnar innan við Búðará og við Botnahlíð utanverða. Áformaðar eru ýmsar rannsóknir á jarðlögum í Neðri-Botnum á næstunni í tengslum við frumathugun á varnarvirkjum fyrir suðurhluta Seyðisfjarðar. Í þessum rannsóknum geta komið fram nýjar upplýsingar sem leiða til frekari endurskoðunar á skriðuhættumati fyrir byggðina.

Í fyrirliggjandi hættumati frá 2019 eru skilgreind stór skriðuhættusvæði í suðurhluta þéttbýlisins í Seyðisfirði þar sem upplýsingar hafa fundist í jarðlögum um stórar skriður. Ekki er gert ráð fyrir að meginniðurstöður hættumatsins frá 2019 breytist í grundvallaratriðum og því er gildandi hættumat grundvöllur ákvarðana um þörf fyrir varnaraðgerðir og breytingu á landnotkun og skipulagi Seyðisfjarðar sem taka þarf á næstunni.

Mynd: lögregla.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.