Með hóp af Krossnefum í fæði á veturnar

Ævar Dungal fasteignasali er með hóp af Krossnefum í fæði hjá sér að Kaldá á Völlum yfir veturinn. Um er að ræða um 30 til 40 af þessum litríku fuglum sem koma daglega í matinn.

„Það er mjög gefandi fyrir mig að fylgjast með þessum fuglum því fljótt kemur í ljós að hver og einn þeirra býr yfir ákveðnum skapgerðareinkennum,“ segir Ævar.

Fram kemur í máli hans að sérstakur forystufugl fari fyrir hópnum og stjórni honum.

„Þegar hópurinn kemur í mat sest hann fyrst á greinar á nærliggjandi tré með forystufuglinn efstan,“ segir Ævar. „Síðan fikrar forystufuglinn sig niður tréið grein af grein og gefur loks frá sér svoldið sérstakt hljóð og þá hópast allir fuglarnir að fæðinu sem í boði er.“

Ævar segir að hann hafi komið sér upp aðstöðu með kíki til að fylgjast með daglegu lífi þessara Krossnefa. En það sé aðeins á veturnar.

„Ég er ekki með þennan hóp í fæði yfir sumarmánuðina. Þá sjá þeir um sig sjálfir í skóginum,“ segir Ævar.

Á vefsíðunni fuglavefur.is segir að: „Krossnefur er sérkennileg, stór finka með stóran gogg, skoltarnir ganga á misvíxl og ber fuglinn nafn sitt af því. Goggurinn er sérhæfður til að ná fræjum úr könglum. Karlfugl er oftast hárauður með dekkri vængi, en getur einnig verið appelsínugulur eða jafnvel grænn. Kvenfugl er grágrænn með gulgrænan gump og ungfugl er sterkrákóttur, brúnleitur eða mógrænn.“

Mynd: Ævar Dungal

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.